Viskíhornið smakkaði Talisker Distiller’s Edition 2006 nýverið en sú útgáfa er að hluta þroskuð í Amoroso sérríámum. Hér er það sem okkur fannst.
Angan: Talisker-reykurinn er áberandi, en sérríþroskunin felur hann svolítið og gefur sætari keim en er af 10 ára Talisker. Mikið krydd, helst pipar og svolítið ,,rykugt”, gamalt háaloft kemur upp í hugann. Þang. Dökkt súkkulaði.
Bragð: Þykkt, digurt reykjarbragð og sérríið rímar afar vel við. Virkar mjög vel saman. Reykurinn minnir á brunna karamellu / brúnaðar kartöflur jafnvel. Einnig koma þurrkaðir ávextir eins og rúsínur við sögu.
Eftirbragð: Mjög langt, mikil fylling. Reykurinn og sérrísætan lifa lengi með manni. Afar gott viskí sem óhætt er að mæla með fyrir aðdáendur t.d. Lagavulin og Caol Ila.