Ardbeg Day er árlegur viðburður með allskonar húllumhæi þar sem ný útgáfa af þessari reykbombu er gefin út, í takmörkuðu upplagi. Viskíhornið hefur verið viðstatt Ardbeg Day undanfarin ár og hafa viskíin verið upp og ofan. Í fyrra hét það Ardbeg Kelpie og var að hluta úr eikartunnum frá svæðinu kringum Svartahaf, sem gaf mjög söltugan keim og virkaði mjög vel. Eitt það besta úr Ardbeg Day seríunni.
Þetta árið, 2. júní 2018, kemur Ardbeg Grooves sem er úr tunnum sem áður innihéldu rauðvín og voru tunnurnar extra mikið ristaðar til að opna vel um kryddin og vanilluna sem leynast innan í eikinni.
Að vanda verða tvær útgáfur í boði í tilefni Ardbeg Day. Fyrir meðlimi Ardbeg nefndarinnar (e. Ardbeg committee) verður í boði Ardbeg Peat&Love, sem er það sama og Grooves en verður af náttúrulegum styrkleika eða 51.6%. Ardbeg Grooves verður í boði á almennum markaði, en þó í takmörkuðu upplagi og verður það átappað 46%.
Reykt viskí og rauðvín er hjónaband sem okkur hjá Viskíhorninu finnst stundum frekar stormasamt, getur virkað, en getur orðið alger katastrófía. Það verður forvitnilegt að sjá hvernig reykmökkurinn frá Ardbeg blandast við rauðvínssætuna.