Ardbeg framleiðandinn á Islay hefur undanfarin 6 ár staðið fyrir svokölluðum Ardbeg Day þar sem kynnt er ný, takmörkuð Ardbeg útgáfa sem er frábrugðin standardinum, úr annarskonar tunnum og þess háttar.
Ardbeg Day 2017 útgáfan ber heitið Ardbeg Kelpie, nefnt eftir goðsögulegum sjávarskepnum, Kelpie sem hrellt hafa eyjarskeggja á Islay gegnum aldirnar.
Eins og áður sagði eru Ardbeg Day útgáfurnar frábrugðnar kjarnaviskíiunum, 10 ára, Uigeadail og Corryvreckan. Ardbeg Galileo (2012) var t.a.m. úr sikileyskum Marsala tunnum að hluta (og nei, það fór aldrei út í geim, öfugt við orðróminn í kringum það viskí), Ardbeg Ardbog (2013) úr Manzanilla tunnum, Ardbeg Auriverdes (sem kom út 2014 þegar HM var í Brasilíu og var nefnt eftir brasilíska liðsbúningnum, Auri: gull og Verdes: grænn) og var þroskað í gömlum bourbontunnum, en þær voru með lok úr ferskri eik (já, Ardbeg er stundum með svolitla sýndarmennsku) svona til að nefna nokkur.
Í ár, 2017 er viskíið úr amerískum búrbontunnum og ferskri eik frá Adyghe lýðveldinu í Rússlandi, við austurströnd Svartahafs.
Þessar Svartahafstunnur gefa viskínu mikla seltu, það er ekki eins reykt og maður býst við frá Ardbeg, það er eitthvað þarna sem heldur reyknum ögn í skefjum.
Angan: Það er þang, pipar, sjávarsalt og vissulega töluverður reykur, en hann er öðruvísi, gúmmíkenndari, nýlagt malbik og töluverð eik, enda er þetta að hluta úr ferskri eik. Fura og jurtir.
Bragð: Ef við berum saman við 10 ára Ardbeg, þá er mun meiri fylling í Kelpie, það virkar minna reykt og flóknara, þó vissulega sé Ardbeg 10 margslungið, þá er bara aðeins meira í gangi í Kelpie. Það er mun dekkra á litinn, og þegar þú kemst framhjá reyknum sem mætir þér fyrst þá er það er þyngra, þarna kemur karamellukeimur töluverður, krydd (helst svartur pipar) og vanilla úr fersku eikinni, en það sem stendur upp úr er saltkeimurinn sem virkar afskaplega vel með reyknum. Það virkar söltugra en 10 ára.
Ardbeg Kelpie er með betri Ardbeg Day útgáfum að okkar mati. Dark Cove í fyrra var verulega gott líka, mjög mikil sérríáhrif þar. Auriverdes var floppið af þessum 6 útgáfum en allar hinar mjög stöðugar og vel heppnaðar.
Þessar útgáfur koma fyrst af náttúrulegum styrkleika og eru eingöngu í boði fyrir meðlimi í velunnarafélagi Ardbeg, The Ardbeg Committe en nokkrum vikum síðar kemur hún á almennan markað og þá vanalega átappað af 46% styrkleika.
Það er vissulega ómögulegt að kaupa þetta á Íslandi, en þetta er fáanlegt í Royal Mile Whiskies. Sendið okkur línu ef viljið taka frá flösku.