Landsvæði

Talað er um sex svæði viskíframleiðslu í Skotlandi; Campbeltown, Eyjarnar, Hálöndin, Islay eyjan, Láglöndin og Speyhérað. Oft eru eyjarnar taldar með hálöndunum en við skulum halda þeim aðskildum.

campbeltownCampbeltown

Í dag eru einungis þrjár verksmiðjur eftir í Campbeltown, sem er bær á Kintyre skaganum við suðvesturströnd meginlandsins. Þær eru Springbank, Glengyle og Glen Scotia.

Gríðarmikil viskíframleiðsla var þar á árum áður og á 19. öld voru hvorki fleiri né færri en 34 viskíverksmiðjur í Campbeltown. Flestar lokuðu þær á 20. öldinni og húsakostur flestra rifinn.

Ein helsta ástæða þessa gríðarlega fjölda verksmiðja á tiltölulega litlu svæði var að þar er virkilega góð höfn en með tilkomu lestakerfis á meginlandinu og uppgangs Speyside viskíanna í framhaldi af því, lagðist framleiðslan nánast af í Campbeltown. Tvær verksmiðjur lifa enn í dag, Springbank og Glen Scotia auk þess sem Glengyle var endurreist um aldamótin. Samkeppnin við meginlandsviskíin varð til þess að margar verksmiðjur í Campbeltown fóru að flýta framleiðslunni, reyna að koma frá sér viskíi í meira magni. Þar skutu menn sig svolítið í fótinn því þetta kom niður á gæðunum og neytendur færðu sig í auknu mæli yfir til Speyside.

Þessar þrjár verksmiðjur sem eru þar í dag eru gríðarvinsælar, enda hágæðaviskí.

Springbank framleiðir þrjár mjög mismunandi tegundir, Springbank, Hazelburn og Longrow sem má lesa um annarsstaðar á síðunni.

Glengyle framleiðir hið stórfenglega Kilkerran og síðan er það Glen Scotia sem er oft úr sérrítunnum, með örlítinn reykjarkeim. Það er því nánast farið yfir alla bragðflóruna á Campbeltown.


eyjarEyjarnar

Til eyjaviskía myndu teljast:

Orkneyjar. Þar eru framleidd Highland Park og Scapa, tvö mjög mismunandi viskí. HP ögn reykt og sætt meðan Scapa er mun léttara og óreykt.

Isle of Skye en þar eru tvær verksmiðjur. Talisker er millireykt, piprað og miklum strandakeim. Hin verksmiðjan er Torabhaig sem opnaði í janúar 2017 og ekkert hefur komið frá þeim enn.

Isle of Mull. Þar er það Tobermory verksmiðjan sem framleiðir hið lauflétta Tobermory og hið léttreykta Ledaig.

Isle of Jura. Á þeirri eigu er Jura verksmiðjan sú eina, en hún framleiðir margar mismunandi tegundir og erfitt að segja að þeir eigi sinn hússtíl.

Að lokum er það Isle of Arran, sem er ein nýjasta verksmiðjan, opnuð árið 1995. Hússtíllinn er reykt, létt, sítruskennt og ferskt viskí.


highlandsHálöndin

Í hálöndunum er kominn saman fjöldi verksmiðja á mjög dreifðu svæði og því ekki beint einn ákveðinn stíll sem einkennir svæðið. Hálandaviskíin eru þó almennt þyngri, en t.a.m. láglandaviskí og þau sem koma úr Speyhreppi, sum örlítið reykt en þó ekki nærri í eins miklu mæli og Islay viskíin. Balblair er t.a.m. nokkuð sætt, með sítruskeim, sérstaklega þau yngri, á meðan t.d. Old Pulteney er með áberandi söltuðum keim í bland vegna nálægðar við sjó. Segja má að almennt séu hálandaviskí með meðalfyllingu, ögn reykt norðantil en léttari og blómlegri eftir því sem sunnar dregur.


islayIslay

Frá eynni Islay (borið fram Æla), við suðvesturhornið koma reykbomburnar. Þar eru Ardbeg, Laphroaig, Kilchoman, Lagavulin, Caol Ila og Bowmore auk Bruichladdich og Bunnahabhain sem eru vanalega óreykt (með undantekningum).

Jarðvegurinn á Islay er afar ríkur af mó, sem er notaður sem eldsneyti við þurrkun byggsins og þaðan kemur reykjarbragðið. Enska orðið yfir mó er ‘peat’ og því er talað um að reykt viskí séu ‘peated’ og það eru þau svo sannarlega flest frá þessu svæði. Islay viskí eru flest hver mjög ágeng og ekki allra.


lowlandsLáglöndin

Í láglöndunum í dag eru ekki margir framleiðendur eftir. Það ber helst að nefna Auchentoshan, sem er rétt við Glasgow, Glenkinchie nálægt Edinborg og svo er Bladnoch sunnarlega í Skotlandi, en hún hefur verið ‘sofandi’ undanfarin nokkur ár en það er jú eitthvað lífsmark með henni þessa dagana eftir að ástralskur auðkýfingur keypti hana. Auk þess var Annandale að opna en um hana má lesa hér og svo er önnur sem heitir Ardgowan í startholunum.

Áður fyrr voru mun fleiri framleiðendur en flestir lokuðu þeir sínum dyrum á 9. og 10. áratugnum. Þar má nefna Rosebank, St. Magdalene, Inverleven, Ladyburn og Littlemill. Helsta einkenni er þríeimun og því afar léttur spíri sem kemur úr eimurunum, sem skilar sér í viskíinu, grösugt, blómlegt, óreykt og aðgengilegt. Mjög góður fordrykkur flest.


speysideSpeyside

Í Speyhéraði er saman kominn aragrúi viskíverksmiðja, hver ofan í annarri en þar eru um 50 verksmiðjur á tiltölulega litlu svæði. Þar eru stórkanónur á borð við Glenfiddich og Glenlivet með sín léttu og fersku viskí úr búrbontunnum, auk þess Macallan, Balvenie og Glenfarclas með sín þyngri viskí úr sérrítunnum, og allt þar á milli, en viskí þaðan eru mörg hver einkar vel til þess fallin að slíta barnskónum í sérríámum og eru þær þónokkrar verksmiðjurnar sem notast við slíkar ámur. Algengust þaðan eru þó léttari viskí úr búrbontunnum.