Port Charlotte 10

Bruichladdich (Brukkladdí) verksmiðjan var stofnsett árið 1881 og hefur gengið gegnum stormasama tíð og ör eigendaskipti, en henni var lokað nokkuð reglulega á síðustu öld. Lokanir stóðu yfir 1929-1936, 1983-1993, 1995-1998 og svo aftur síðar 1998-2000 er Murray McDavid keypti framleiðsluna og hefur hún starfað sleitulaust síðan með góðum árangri. Árið 2001 voru húsakynnin jöfnuð við jörðu og endurbyggð en haldið var í gamaldags framleiðsluaðferðir. Remy Cointreau keypti fyrirtækið árið 2012 og hefur allt verið á stöðugri uppleið síðan. Remy keypti framleiðsluna fyrir 58 milljónir punda, sem þótti galið á þeim tíma. Talað er um að á þessum tæpa áratug sem er liðinn frá kaupum hafi verðgildi Bruichladdich hátt í tífaldast, svo það er ljóst að vel hefur verið haldið á spilunum.

Kjarnaframleiðsla Bruichladdich í dag er hið óreykta Bruichladdich, hið töluvert reykta Port Charlotte og hið ofurreykta Octomore.

Auk þess má nefna hið nýlega, frábæra og ofurvinsæla gin, Botanist sem er framleitt þar.

Port Charlotte (nefnt eftir verksmiðju sem starfaði á Ílareyju á árunum 1829-1929) er tiltölulega nýtt viskí. Fyrsta útgáfa þess, PC5 kom á markað árið 2006 og er töluvert mikið reykt, eða 40 PPM (phenols per million) sem er nokkuð á pari við þekktari viskí eins og Lagavulin og Laphroaig svo eitthvað sé nefnt.

PC10 samanstendur af 65% viskíi úr nýjum búrbontunnum, 10% enduráfylltum búrbontunnum og 25% enduráfylltum rauðvínstunnum. (Til skýringar: Nýjar búrbontunnur innihéldu búrbonviskí áður, síðan PC. Enduráfylltar búrbontunnur hafa innihaldið búrbon, síðan annað viskí og þá PC. Enduráfylltar rauðvínstunnur hafa innihaldið rauðvín, þá einhverskonar viskí og síðan PC)

Angan: Karamella, vanilla, appelsínubörkur og jafnvel rúsínukeimur sem væntanlega kemur aðallega úr rauðvínstunnunni. Ofan á þetta allt leggst þykkur móreykjarmökkur. Söltugur fjörukeimur. Gamlir kaðlar á enn eldri díseltrillu.

Bragð: Mikilfenglegur móreykur til að byrja með en jafnast út með rauðvínssætu, pipar, appelsínukeim, vanillu og karamellu. Þykk og olíukennd, þekjandi áferð. Fullkomið jafnvægi.

Eftirbragð: Margslungið, langt og yljandi. Móreykurinn lifir lengi með manni. Eins og oft er einkenni reyktra Ílarviskía þá er þarna skemmtilegur fjörulallablær.

Einstaklega skemmtilegt viskí fyrir þá sem vilja viskíin sín reykt (Laphroaig, Ardbeg, Lagavulin, Caol Ila, Kilchoman til að nefna nokkur) en vilja prófa eitthvað nýtt. Við getum vart mælt meira með Port Charlotte fyrir ykkur reykháfana.

Framúrskarandi viskí og einn hápunkta þeirra sem við höfum smakkað nýverið.


Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.