Lagavulin 16

Lagavulin er frá Ílareyju (e. Islay) undan suðvesturströnd Skotlands en þaðan koma þessar þekktu, skosku reyksprengjur; Laphroaig, Ardbeg, Caol Ila o.fl ásamt téðu Lagavulin.

Lagavulin er gömul og sögufræg viskíverksmiðja en viskíið þeirra er með þeim vinsælustu á heimsvísu þrátt fyrir að vera hálfgerður kettlingur hvað framleiðslugetu varðar í samanburði við marga risana, sem segir til um gæðin. Heimildir um framleiðslu þar ná allt aftur til ársins 1742, en þá án leyfis yfirvalda. Lagavulin fékk framleiðsluleyfi árið 1816 og fagnaði því 200 ára afmæli nýverið. Verksmiðjan hefur starfað sleitulaust allt frá upphafi og geri aðrir betur.

Lagavulin sker sig úr að því leiti að kjarninn þaðan er átappaður rétt undir bílprófsaldri, eða eftir 16 ár í eikartunnu hið minnsta. Þess má geta að standardar nábúanna eru yfirleitt settir í gler um 10 árin eða svo.

Það þýðir að Lagavulin hefur vissulega fengið lengri tíma til að þroskast, tímgast og þróast umfram önnur viskí frá eyjunni og hefur Lagavulin að því leyti ákveðna sérstöðu.

Lagavulin er vissulega þekkt fyrir sinn reykjarkeim en það er svo margt annað sem liggur móreyknum að baki enda eftir 16 ár í eikinni hefur það mildast ögn og drukkið inn í sig alls kyns mismunandi blæbrigði úr tunnunni og andrúmsloftinu. Móreykurinn heldur vissulega sínum velli en Lagavulin er eitt margslungnasta viskíið á markaðnum, kafi maður undir yfirborðið.

Kjarninn er 16 ára, en auk þess eru í boði 8 ára og 12 í takmörkuðu upplagi. Í enn takmarkaðra upplagi má finna Distiller’s Edition og 20 ára auk annarra.

viski LagavulinSkoðum 16 ára, 43%

Angan: Afar mikill móreykur (sem mildast í munni). Grillað flesk, krydd, vindlareykur. Þurrkaðir ávextir, fíkjur, örlítill rúsínukeimur en einnig leynast í bakgrunni ferskir ávextir eins og perur. Joð, vanilla og pipar.

Bragð: Áferðin er þykk og mikil. Olíukennd og þekur góminn vel og lengi. Að hluta til er notast við sérrítunnur og þær gefa örlitla sætu sem minnir á rúsínur og döðlur. Í bakgrunni er karamella en það sem er mest áberandi er móreykur en hann er mildari, þurrari en frá flestum nágrönnum á Ílareyju.

Afskaplega skemmtilegt og margslungið viskí.

Eftirbragð: Móreykjarbragðið situr eftir ansi lengi en einnig má greina vanillu, krydd og þurrkaða ávexti.

Niðurstaða: Eitt það allra besta og slungnasta viskí á markaðnum. Þvílík bragðsprengja.

Fyrir hverja er Lagavulin?

Það er kannski ekki allra, enda getur það virkað ögn ágengt, en fyrir þá sem vilja taka skref inn í reyktu viskíin þá er Lagavulin gott fótmál, enda vel þroskað og fjölþætt. Ef það virkar ögn of ágengt fyrst um sinn, þá er um að gera að hella skvettu af vatni út í til að milda það ögn og róa niður.

Þess má geta í lokin að Lagavulin 16 er unaðsleg pörun við vel þroskaðan gráðaost.


Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.