Galískan, forn-skoskan er skemmtilegt fyrirbæri fyrir áhugasama að velta sér fyrir.
Viskíáhugamenn hafa væntanlega gaman af að hnýsast fyrir um hvað heiti þeirra uppáhalds viskía þýða eiginlega.
Skoðum nokkur skemmtileg frá Islay:
Ardbeg: Ardbeg (áhersla á –beg) er nútímavæðing yfir það sem útleggst á galísku sem An Áird Bheag og er á ensku A small Promontory. Promontory myndi vera eitthvað sem við þekkjum á íslensku sem höfði. Þá gætum við hugsanlega hugsað okkur að Ardbeg á íslensku sé hugsanlega Smáhöfði eða Litli höfði.
Bowmore: Bowmore (áhersla á -more) er The Great See Reef, eða hið mikilfenglega sjávarrif. Miklarif?
Bruichladdie: Þetta nafn getur vafið tungum um tennur. Borið fram eitthvað á þessa leið: Brughladdí (með ‘gh’ kokhljóði) og útleggst á ensku sem Brae of the shore. Brae myndi vera hlíð eða slakki. Hvaða þýðingu ættum við þá að skella á Bruichladdie? Strandarslakki? Fjöruslakki?
Bunnahabhain: Þarna er annað heiti sem oft og tíðum vefst fyrir fólki. Borið fram Bunnahaven, með áherslu á -haven. Hvað þýðir Bunnahabhain? River Mouth myndi það vera og því liggur beinast við að kalla það Árós/Árósar, ekki satt?
Caol Ila: Borið fram Kal Íla, með áherslu á Íla. Enska heitið er Sound of Islay, sem er sundið milli Islay og eyjunnar Jura. Islay þýðir eyja og sound er sund og því tilvalið að nefna Caol Ila Eyjarsund/Eyjasund eða hugsanlega Ílarsund?
Kilchoman: Borið fram Kil Hóman (með nettu kokhljóði og áherslu við há-ið). Það er nokkuð á reiki hvað þetta myndi þýða á nútímatungu en Kil gæti þýtt kapella og Choman gæti þýtt foss. Kapellufoss þá hugsanlega, en gegnum aldirnar hefur uppruninn hugsanlega skolast ögn til eins og gengur og gerist. Eitt sinn fyrir öldum alda var reyndar þar á bæ guðsmaður að nafni séra Choman svo það gæti haft áhrif og spilað inn í en eins og við sögðum þá er þetta er svolítið á reiki og þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir til að finna uppruna nafnsins verðum við að játa okkur sigruð í bili. Uppástungur og athugasemdir eru vel þegnar frá lesendum.
Kapella séra Choman … Kómanskapella? -sem er reyndar hálfgert orðskrípi. Ættum við einfaldlega að sættast á heitið Kapella?
Lagavulin: Galíska: Lag a’Mhuilinn. Framburðurinn þessi ætti ekki að vefjast mikið fyrir, enda borið fram rétt eins og það er ritað, með nettri áherslu á “vu”. Á ensku útleggst það sem Hollow by the Mill, eða vatnsból sem stendur við myllu. Það gæti reynst þrautinni þyngra að snara því yfir á íslensku og erum við galopin fyrir uppástungum. Við leggjum til heitið Mylluból.
Laphroaig: Framburður – Lafrojg, með áherslu á –frojg. Uppruni þessa heitis er nokkuð á reiki en getgátur eru uppi um að það komi frá galíska heitinu Próaig, sem þýðir breiður flói/fjörður. Því mætti hugsa sér að nefna Laphroaig Breiðavík, eða Breiðfjörður/Breiðflói upp á ástkæra, ylhýra.