Kilchoman

Saga Kilchoman er ekki löng en hún nær eingöngu aftur til ársins 2002 er eigandinn, Anthony Wills fékk þá flugu í höfuðið að opna fyrstu viskíverksmiðjuna á Islay í heil 124 ár. Framleiðsla hófst svo þremur árum síðar og fyrsti einmöltungurinn leit dagsins ljós árið 2009. Nokkrir viskívísar höfðu þó komið þaðan ögn fyrr, ,,viskí” sem ekki hafði náð þriggja ára aldri. Viskíhornið var á þeim tíma svo gæfusamt að prófa þá og það var ljóst að þarna var vel í lagt og vel staðið að verki. Hvurgi hendi til kastað.

Það kom svo sannarlega á daginn þegar einmöltungarnir fóru að láta á sér kræla. Þarna var frábært, nýtt Ílarviskí sem smakkaðist ótrúlega vel þroskað miðað við ungan aldur, enda enginn annar en John MacLellan við stjórnvölinn en sá hafði áður yfirumsjón yfir upprisu Bunnahabhain á sínum tíma. John tapaði því miður baráttu við krabbamein árið 2016.

Stutt saga Kilchoman er blómleg og gæfurík enda, sem fyrr segir er þarna frábærlega vel gert viskí á ferðinni. Kjarninn er Kilchoman Machir Bay, sem er 80% úr búrbontunnum og 20% úr sérrítunnum.

Auk þess er þar Kilchoman Sanaig sem er 30% búrbon og 70% sérríáma. Loch Gorm er einnig fáanlegt en í takmörkuðu upplagi og er eingöngu úr Oloroso sérrítunnum.

Kilchoman er býlisverksmiðja og er rúmur fjórðungur byggsins sem notaður er, ræktaður á staðnum. Þá komum við að Kilchoman 100% Islay, en í þeirri útgáfu er, eins og nafnið gefur til kynna, allt byggið ræktað þar. Kilchoman er verulega mikið reykt viskí, en byggið sem Kilchoman ræktar á býlinu (Rockside Farm) er minna reykt, eða um 20ppm á móti hinum ofantöldu sem eru um 50-55ppm, en í þeim er megnið af bygginu aðkeypt.

Skoðum kjarnann, Machir Bay. 46%

Angan: Vanilla, svolítil sæta úr sérrítunnunni, sítrus, kolagrill og heilmikill móreykur.

Bragð: Olíukennd áferð, fremur sætt, mikill ávöxtur, sítrónur og búnt af móreyk. Sjávarselta. Sérrítunnan leggur til keim af þurrkuðum ávöxtum – rúsínum.

Eftirbragð: Langt og reykt, vanilla, sérrísæta, pipar.

Niðurstaða: Ótrúlega vel samsett viskí og afskaplega vel þroskað miðað við ungan aldur. Frábærlega vel að verki staðið. Þvílíkt jafnvægi. Þeir sem eru fyrir reykt viskí hreinlega verða að prófa Kilchoman, sama hvaða útgáfu. Það er skylda hvers manns!


Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.