Glen Garioch

Glen Garioch er ein elsta viskíverkmiðja Skotlands en opinberlega opnaði hún árið 1797 þó svo heimildir séu til um framleiðslu viskís þar sem ná allt aftur 1785 er viskí frá Oldmeldrum var auglýst í staðarblaðinu Aberdeen Journal. Sem fyrr segir er 1797 opinbert ártal verksmiðjunnar en þá var eigandi hennar maður að nafni John Manson. Hún hefur gengið gegnum nokkuð mörg eigendaskipti og lokanir gegnum tíðina, nú síðast árin 1995 til 1997. Hún er nú starfrækt af Morrison Bowmore, sem er í eigu japanska fyrirtækisins Suntory.

Glen Garioch er í austur-hálöndunum, í litlu þorpi sem heitir Oldmeldrum og stendur nálægt Aberdeen, steinsnar norðar. Verksmiðjan er norðarlega í þessu litla þorpi, sem telur rétt ríflega 2000 íbúa. Ein aðal umferðaræðin inn í þorpið úr norðri liggur milli húsnæða verksmiðjunnar og því vissara fyrir starfsmenn og gesti að líta vel til beggja hliða!

Framburður Glen Garioch nafnsins vefst fyrir mörgum. Ekki er það Glen Garíokk, heldur Glen Gjirí. Glen þýðir dalur á galísku og Garioch er kornræktarland/akur. Eigum við þá ekki bara að segja að nafnið útleggist sem Akradalur?

Eins og algengt er með maltviskí þá var Glen Garioch mest notað til blöndunar fyrr á tímum. Einmöltungar komu í raun ekki til sögunnar fyrr en á seinni hluta síðusta aldar. Flest viskí voru blönduð til að ná stöðugleika milli lagana, því einmöltungar áttu það til að vera fremur óstabílir. (Til að geta þess í hvað Glen Garioch var notað áður fyrr þá fór það að miklu leyti í blönduna Vat69 og í líkjörinn Drambuie en því var hætt árið 1972. Öll framleiðsla Glen Garioch í dag eru einmöltungar. Ekkert er blandað).

Fram til ársins 1995 var Glen Garioch nokkuð reykt viskí, töluvert af mó var notað til byggþurrkunar auk þess sem byggið var maltað á staðnum. Þegar verksmiðjan opnaði á ný árið 1997 var ákveðið að venda kvæði í kross og hætta að framleiða reykt viskí auk þess sem hætt var að vinna byggið á staðnum. Því er byggið sem notast er við eftir 1995 óreykt og aðkeypt.

Viskíhornið hefur verið það lánsamt að bæði heimsækja verksmiðjuna og smakka viskí þaðan, framleidd fyrir lokun 1995. Léttreykt, í átt við Talisker til að nefna eitthvað. Þykkt, olíukennt og sneisafullt af ávöxtum. Algerlega stórfengtlegt viskí og synd og skömm að það sé ekki framleitt lengur.

Glen Garioch eftir enduropnun 1997 er þó alls ekkert til að kvarta yfir, síður en svo.

Kjarninn í dag er Founder’s Reserve, sem er ungt og án aldurstilgreiningar sem og 12 ára. Auk þess koma þaðan árgangsviskí og eintunnungar í takmörkuðu viðhafnarupplagi.

Skoðum Glen Garioch 12 ára, 48% þroskað að mestu í búrbontunnum en að nokkru leyti í sérrítunnum.

Angan: Mjög aðlaðandi. Sæt. Vanilla, perur, maltað bygg. Ávextir sem minna á perur og ananas.

Bragð: Mikill fylling, þekur góminn vel. Afar mjúk og þægileg áferð. Styrkurinn, 48% gerir viskíinu gott. Það nýtur sín afskaplega vel á þessum styrk. Vatnsdropi mýkir það en gætið að því að bæta ekki of miklu við því það ,,drukknar” fljótt. Mikill kryddkeimur. Pipar, græn krydd og vottur af karamellu/toffí. Vanilla úr eikinni.

Eftirbragð: Nokkuð langt og heitt/kryddað. Mjúkt, notalegt og viðkunnanlegt. Vanilla og það er ekki laust við að það sé í bakgrunni örlítill appelsínubörkur sem vill láta taka eftir sér.

Niðurstaða: Frábært viskí sem gaman er að endurnýja kynnin við. Glen Garioch er ekki á vörum allra viskíunnenda og það vill gleymast hversu ljúffengt þetta viskí er. Frábærlega vel gert, átappað á góðum styrk og fæst á mjög góðu verði.

Founder’s Reserve er að megninu sama uppskrift og 12 ára en vissulega yngra og ekki eins vel þroskað.


Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.