Knockando er einmöltungur frá Speyhéraði og var verksmiðjan stofnuð árið 1898 af John nokkrum Thonpson. Hefur hún starfað æ síðan ef undanskilin eru árin 1900 (einungis ári eftir að framleiðsla hófst) til 1903 er hún gekk í gegnum tvenn eigendaskipti. Einnig lokaði hún um skamma hríð á seinni stríðsárunum vegna byggskorts/skömmtunar. Gilbey’s Gin Co. keypti árið 1903 og hófst þá framleiðsla af fullum krafti. Eigendaskipti hafa verið nokkuð tíð en í dag á drykkjarisinn Diageo verksmiðjuna.
Þess má geta að Knockando er fyrsta viskíverksmiðjan sem byggð var með raflýsingu.
Eins og algengt er með eldri maltviskí, þá fer megnið af Knockando í blöndur og í þessu tilviki er viskíið aðal maltuppistaðan í hinni heimsfrægu blöndu J&B, sem ávallt nær inn á topp 10 lista yfir söluhæstu viskí heims. Knockando þykir blandast einstaklega vel við önnur viskí, sérstaklega kornviskí.
Knockando var ekki sett á markað sem einmöltungur fyrr en árið 1971 og öðlaðist fljótlega miklar vinsældir á meginlandi Evrópu og síðar í Bandaríkjunum.
Knockando notast nánast eingöngu við eikartunnur sem áður innihéldu búrbon og þá mestmegnis frá Jack Daniel’s og Maker’s Mark.
Einungis ein tegund er í kjarnaframleiðslu og er það Knockando 12. (Aðrar, eins og 15 og 18 ára koma í takmörkuðu upplagi)
Lítum nánar á það:
Angan: Hún er afar mild, þægileg og mjúk. Vanilla, bygg, bananar. Karamella.
Bragð: Þægilega sætt. Hunang. Mjög milt og sérlega aðgengilegt. Vanilla. Korn. Ávaxtasalat. Léttur piparkeimur. Örlar á karamellu.
Eftirbragð: Miðlungslangt. Vanilla, krydd, korn og ekki laust við að það sé þarna smá engifer í bakgrunni.
Niðurstaða: Afskaplega aðgengilegt og auðvelt viðureignar. Knockando er stórgott fyrir þá sem eru fyrir Spey-viskí, enda sígilt sem slíkt. Fullkomið fyrir aðdáendur Glenfiddich, Glenlivet, Strathisla svo eitthvað sé nefnt.
Gott viskí á góðu verði. Viskíhornið mælir með!