Saga Clynelish viskíbólsins er svolítið flókin og skemmtileg. Clynelish eins og við þekkjum það í dag var stofnað árið 1967. Verksmiðjan er í norður-hálöndunum en sagan teygir sig í raun allt aftur til ársins 1819.
Árið 1819 var Clynelish verksmiðjan stofnuð og starfaði sem slík til ársins 1968. Árið 1967 var önnur verksmiðja opnuð rétt við hliðina, af sömu eigendum. Eftirspurn var að aukast og í stað þess að stækka gömlu Clynelish verksmiðjuna, var önnur byggð við hliðina og voru þær þá einfaldlega nefndar Clynelish A og Clynelish B og til stóð að hafa þær báðar starfandi þar til Clynelish B hafði náð fram sömu færni og búa til nákvæmlega eins viskíi og hafði verið gert í þeirri gömlu.
Stærstur hluti Clynelish fer í blöndur, aðallega Johnnie Walker. Sömu sögu er að segja um Caol Ila, en Caol Ila leggur til mestmegnið af reyktum einmöltungum í JW.
Diageo (eigandi bæði Clynelish og Caol Ila sem og JW) ákvað seint á 7. áratugnum að árið 1972 yrði Caol Ila endurbyggð frá grunni og framleiðsla myndi því stöðvast. Því brá Diageo á það ráð að enduropna Clynelish A árið 1969 og hefja þar framleiðslu reykts viskís til að koma í stað Caol Ila svo framleiðsla JW gæti haldið áfram óbreytt.
Clynelish A opnaði á ný ári eftir lokun, og var nafninu breytt í Brora, nafn sem lætur hjarta viskíunnenda í dag taka örlítinn aukakipp. Brora sem einmöltungur er afar verðmætt og eftirsótt viskí í dag.
Clynelish A starfaði semsagt sem Brora frá árinu 1969 og framleiddi þar reykt viskí (um 30-35ppm) allt þar til hún lokaði árið 1983. (Áætlanir eru um að Brora enduropni á næstunni).
Vonandi eruði enn með á nótunum. Semsagt:
-Clynelish opnaði 1819 og gerði líttreykt viskí.
-Clynelish B opnaði 1967 og ,,lærði” af Clynelish A.
-Clynelish A lokaði 1968.
-Clynelish A (nú Brora) opnaði aftur 1969 vegna skorts á Caol Ila fyrir Johnnie Walker.
-Brora lokaði 1983.
-Clynelish starfar enn í dag og framleiðir mjög léttreykt viskí í anda þess sem Clynelish gerði upphaflega.
Sem fyrr segir fer lunginn úr framleiðslu Clynelish í blöndur, eða allt að 95% hennar og aðallega í Johnnie Walker.
Af þeirri ástæðu er ekki mikið um einmöltunga frá Clynelish, því miður því það er undursamlegt viskí. Mikið uppáhald Viskíhornsins. Kjarninn er 14 ára úr búrbontunnum en einnig er fáanlegt það sem kallast Clynelish Distiller’s Edition sem er að hluta úr Oloroso sérríámum.
Hvernig bragðast Clynelish 14 (46%) svo?
Angan: Geysilega glúrin, margslungin. Mikill og ferskur ávaxtakeimur, rauð vínber, plómur, mandarínur, heil ávaxtaskál hreinlega. Hunang, vanilla, smá pipar og örlítill reykjarkeimur. Nýtt leður.
Bragð: Ávaxtasprengja, vanilla, hunang. Þykk áferð sem þekur góminn vel og örlítill móreykjarkeimur sprangar um munninn. Karamella. Örlar á söltugum strandablæ. Mjög líflegt, flókið viskí.
Eftirbragð: Langt en milt og þægilegt. Það sem lifir einna lengst er vanillan í bland við krydd (pipar) og svo er þarna ögn af sjávarseltu og nettur móreykur í bakgrunni.
Niðurstaða: Eitt glúrnasta viskíið á almennum markaði í dag. Geysilega líflegt, ferskt og flókið og rennur vel niður.
Fyrir hverja er Clynelish?
Fyrir alla viskíaðdáendur má segja, en til að nefna eitthvað þá fá aðdáendur t.d. Highland Park og Old Pulteney töluvert fyrir sinn snúð.
Stórkostlegt viskí.