Bivrost Niflheim

Væntanlegt er viskí frá frændum vorum Norðmönnum og nefnist það Bivrost Niflheim.

Verksmiðjan sem framleiðir viskíið heitir Aurora Spirits og hefur hún þá sérstöðu að vera nyrsta áfengisverksmiðja veraldar en hún stendur við Lyngenfjord í norðurhluta Noregs. Hingað til hafa þaðan komið aðrar tegundir áfengis svo sem gin, vodka, ákavíti og alls kyns líkjörar og er Bivrost Niflheim fyrsta maltviskíið þeirra.

Viskívísirinn fór í tunnur þann 22. nóvember 2016 og í flöskur þann 23. nóvember 2019 og er því þriggja ára og eins dags gamalt eins og lög gera ráð fyrir. (Samkv. skoskum reglum má ekki nota heitið ,,viskí” fyrr en það hefur verið þroskað í þennan tíma og fara flest lönd eftir þeirri reglu)

Niflheim er þroskað í þrennskonar tunnum; gömlum búrbontunnum, nýjum eikartunnum og sérríámum.

Önnur sérstaða sem Bivrost nýtur er sú að viskíið er þroskað neðanjarðar.

Verksmiðjan er þar sem á tímum kalda stríðsins, var herstöð með heilmiklu gangnakerfi og eru tunnurnar þroskaðar þar. Viskíið er geymt í fremur litlum tunnum, í töluverðum kulda og í lokuðu umhverfi, sem fyrr segir. Þessi þrjú atriði verða til þess að uppgufunin úr tunnunum verður minni en gengur og gerist, ,,skerfur englanna” verður smærri, enda hafa þeir ekkert gott af viskíi.

Við hjá viskíhorninu höfum ekki gerst svo lánsöm, ennþá, að smakka veigarnar en við höfum tekið saman smá lýsingu byggða á bæði opinberum smakkpunktum frá Aurora Spirit sem og frá þeim fáu sem hafa smakkað, skrifað um og við treystum til að koma með sanngjarna og óháða umfjöllun.

Angan: Safaríkt, þurrkaðir ávextir, ristaðar hnetur. Kirsuber, rúsínur, fíkjur. Síðan jarðhnetur, möndlur og heslihnetur og keimur af svörtum pipar.

Bragð: Sætt krydd, balsaviður, þurrkaðir ávextir. Hlynsíróp, sætt, hunang. Búrbontunnan kemur snemma fram með vanillu en síðan lætur sérríáman á sér kræla og gefur meiri fyllingu. Ávextir, appelsínur. Súkkulaði, tóbak, hunang.

Eftirbragð: Langt, sætt og kryddað.

Bivrost Niflheim er átappað 46%, kemur í 50cl. flöskum og er áætlað á markað um miðjan maí, fyrst í Noregi, Bretlandi, Svíþjóð og Þýskalandi. Áætlað verð er um 70 sterlingspund.

Spennandi viskí og hlökkum við mjög til að dreypa á.


Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.