Talisker 10 ára

Talisker eru engir nýgræðingar í viskígerð þar sem verksmiðjan opnaði árið 1830, hefur starfað sleitulaust síðan og hefur í dag framleiðslugetu upp á tæpar 3 milljónir lítra á ársgrundvelli.

Talisker framleiðir nokkuð margar mismunandi tegundir. Kjarninn er sá 10 ára, sem er flaggskip verksmiðjunnar.

Aukreitis; Talisker Skye sem er fremur ungt, Talisker 57North sem er ungt og sterkt (57%), Talisker Distiller’s Edition sem er að hluta úr sérrítunnum og Talisker Storm sem er töluvert meira reykt en Talisker 10 er vanalega, að ógleymdu Talisker Port Ruighe sem er að hluta úr púrtvínsámum. Í fríhöfnum er einnig hægt að nálgast Talisker Dark Storm, sem er mjög dökkt og drungalegt enda að miklu leyti úr sérríámum.

Einnig er fáanlegt 18 ára og 25 í fremur takmörkuðu upplagi.

viski Talisker

Talisker 10 – 45.8%:

Helstu bragðeinkenni eru töluverður reykur en þarna má einnig greina krydd á borð við hvítan pipar og sjávarsalt, augljóst að þarna er á ferð viskí sem er framleitt við sjávarsíðuna enda er Skye eyjan ögrum skorin og vindbarin í meira lagi. Hrollkaldir angar Atlantshafsins teygja sig í átt að Talisker viskíbólinu og eiga sinn þátt í bragðinu.

Angan: Reykurinn er svolítið þykkur en á bakvið hann leynist ávöxtur, svolítið ferskur í átt við perur og eplahýði. Strandablærinn er sterkur; þari og söl.

Bragð: Mjög gott jafnvægi milli reykjarins, ávaxtanna og flæðarmálsbragðsins. Fold. Reykt síld (e. kippers). Skemmtilegur piparkeimur lætur á sér kræla, jafnvel smá chilli og engifer. Vel reykt hangikjöt.

Eftirbragð: Töluvert langt. Reykurinn lifir lengst, og þessi ofannefndi chillipipar minnir verulega á sig og anar sér fram. Frekar heitt, yljandi og langt eftirbragð.

Talisker er ögn sterkara en mörg viskí eða tæp 46%. Ef það virðist rífa ögn meira í en maður kærir sig um þá er um að gera að bæta vatnsdropa út í. Það er engin regla um hve miklu vatni heldur bara prófa sig áfram. Með örlitlum vatnsdreitli þá opnar Talisker sig, því það er ögn feimið fyrst um sinn, og verður sætara, aðgengilegra og ánægðara með sig.

Talisker er sígilt eyjaviskí, svolítið gróft og ágengt fyrir suma hugsanlega, en fyrir þá sem vilja léttreykt viskí þá er Talisker eitthvað sem ætti að vera til uppi í skáp hjá öllum viskíaðdáendum.


Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.