Springbank

Springbank er einstök verksmiðja. Einstök að því leyti að hún er eitt fárra viskíbóla í Skotlandi sem er enn í einkaeigu upprunalegra eigenda og auk þess er hún eina viskíverksmiðja Skotlands sem maltar allt sitt bygg sjálf. Aðrar malta að einhverju leyti og kaupa að það sem upp á vantar eða jafnvel kaupa að 100% þess byggs sem til þarf. Öll stig framleiðslunnar fara fram hjá Springbank allt frá möltun til átöppunar. Eitt markmiða Springbank er einnig að viðhalda atvinnu á staðnum, veita sem flestum vinnu og þá borgar verksmiðjan vel yfir lágmarkslaunum. Auk þess hefur hún verið þekkt fyrir að veita þeim vinnu sem minna mega sín í samfélaginu og þá í átöppunardeildinni. Virðingarvert.

Springbank er í Campbeltown, á Kintyre skaganum á suðvesturströnd Skotlands en Páll McCartney gerði skagann þann ódauðlegan í einu laga sinna, svona til gamans.

Fyrir um hundrað árum síðan var Campbeltown höfuðborg skosks viskís en í þeim litla bæ voru hvorki fleiri né færri en 34 verksmiðjur þegar hæst bar. Einungis tvær standa enn, Springbank og Glen Scotia. (GlenGyle/Kilkerran er þar einnig en sú er í eigu Springbank og var reist við árið 2000 eftir áratuga lokun). Mikil og góð höfn er við Campbeltown og hráefni var flutt að miklu leyti með skipum en með tilkomu lestasamgangna á meginlandinu varð flutningur á hráefni til viskíframleiðslu þar auðveldari en áður var og tóku hálöndin yfir, og þá Speyhérað sérstaklega. Til að keppa við vaxandi viskíframleiðslu á meginlandinu fóru nokkrir framleiðendur að flýta sér kannski um of við framleiðslu og ekki næg natni lögð í verkið sem kom niður á gæðum. Viskíkaupendur snéru sér frekar til hálandanna og vel flest viskíból á Campbeltown lögðust af.

Springbank var stofnað árið 1828 og hefur starfað nánast sleitulaust síðan, ef undanskilin eru kreppuárin 1926 – 1933.

Springbank er ekki stór verksmiðja miðað við aðrar, einungis 750.000 lítra framleiðslugeta á ársgrundvelli en þó er aragrúi mismunandi viskía framleiddur þar. Flaggskipið er vissulega Springbank (10,15 og 18 ára) en auk þess koma þaðan Hazelburn, sem er þríeimað og óreykt í anda láglandaviskía og Longrow (tvíeimað) sem er afar mikið reykt í líkingu við viskí frá Ílareyju, svo sem Ardbeg, Laphroaig o.s.frv. en þau eru framleidd í fremur litlu upplagi. Þar að auki eru árlegar viðhafnarútgáfur eins og Springbank 12 Cask Strength og Longrow Red. Þær staldra sjaldnast við lengi í hillum verslana enda eftirspurn eftir þeim, og Springbank í heild, gríðarleg. Talandi um eimingu, þá fer Springbank ótroðnar slóðir eins og þeirra er von og vísa. Springbank er eimað tvisvar og hálfu sinni. Semsagt í eimingu er helmingur af viskívísinum úr fyrri eimara af tveimur, settur aftur í hann til eimingar meðan hinn helmingurinn heldur áfram í eimara tvö. Byggið sem notast er við er léttreykt og úr verður viskí sem er óhemju fjölþætt. Það hefur nánast allt … ögn af móreyk, maltað bygg, mikill ávöxtur, sérrísæta (ávallt notast að hluta til við sérríámur), söltugt enda við strönd. Hakar allt að því í alla kassana.

Skoðum nánar hvernig 10 ára, (46%) bragðast:

Angan: Ferskt, sjávarkeimur, sítrus, eik, vanilla, maltað bygg, græn epli, hnetur og örlar á móreyk. Þessi reykjarkeimur er svolítið sérstakur. Hafi einhver spólað ögn um of á sinni sjálfrennireið þá minnir reykurinn smávegis á það.

Bragð: Þykk og þægileg áferð, mikil fylling, þekur munninn vel. Aftur örlar á móreyk, svolítið ,,earthy“, mold (á góðan hátt), nýslegið gras. Karamella, hnetur, hunang.

Eftirbragð: Langt og digurt. Lifir með manni ansi lengi. Svartur pipar, krydd. Maður getur smjattað á þessu drykklanga stund eftir að sopinn hefur yfirgefið munninn.

Niðurstaða: Stórbrotið viskí í þessum aldurs- og verðflokki. Ekki hlaupið að því að slá því við.

Aftur á móti er það svolítið bljúgt og hvumpið og þarf nokkra stund til að ná áttum í glasinu. Vatnsdropi hjálpar því að opna sig og verður það þá ögn aðgengilegra og opnara fyrir því að skoða sig um í gómi eiganda.

Sé því gefið tími glasinu, þá verður það þinn besti vinur. Springbank er ein mest spennandi og skemmtilegasta viskíframleiðsla Skotlands. Einstök og á fáa sér líka.


Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.