Í apríl 2020 munu Ardbeg senda frá sér nýja útgáfu sem verður hluti af kjarnaframleiðslu þeirra. Skepnan at arna verður í yngri kantinum eða einungis fimm ára gömul og kemur til með að heita Ardbeg Wee Beastie.
Arbeg Wee Beastie ku vera þroskað bæði í gömlum búrbontunnum sem og Oloroso sérríámum. Búrbontunnurnar viðhalda móreykjarbragðinu vel, gefa krydd og vanillu og viðhalda dýrseðlinu en Oloroso tunnurnar koma með mótleik og róa dýrið aðeins niður, en þó ekki mikið og er skepnan lítt tamin. Úr verður alger sprengja, mikil flugeldasýning sem á fáa sér líka.
Ardbeg snýst fyrst og fremst um móreykjarbragðið en einhvern veginn tekst mönnum þar á bæ að ná fram miklum ávexti að auki. Ávöxtum í átt við perur.
Ardbeg Wee Beastie einkennist vissulega af gríðarmiklum móreyk. Auk þess koma fram ávextir sem fyrr segir, svartur pipar, chilli, trjákvoða, tjara og söltugt beikon.
Þarna er mikil skepna á ferðinni, mjög spennandi viskí og eitthvað sem allir reykháfarnir þarna úti ættu að athuga.
Það er eitt sem okkur finnst nokkuð vel gert hjá Ardbeg og það er að setja aldurinn á flöskuna. Margar verksmiðjur sleppa því með þetta ung viskí.
Sem fyrr segir er ætlunin að Wee Beastie komi á markað nú í apríl 2020 og er áætlað verð í Bretlandi tæp 40 sterlingspund.