Hvar byrjar maður þegar maður talar um Caol Ila?
Stærsta viskíbólið á Islay, á vesturströnd Skotlands, en um 85% af framleiðslunni fer í blöndur, t.a.m. Johnnie Walker Black og þar sem eftirspurnin eftir þeirri blöndu er geysileg þá getur verið strembið að finna Caol Ila einmöltung.
Caol Ila viskíbólið var stofnað árið 1846 og hefur starfað sleitulaust síðan þá, utan nokkurra ára hér og þar er það var uppfært og er nú stærsta eimingarhúsið á Islay, en sem fyrr segir þá fer mest af framleiðslunni í blöndur. Hún hefur skipt um eigendur nokkrum sinnum gegnum tíðina en er nú í eigu Diageo sem er eitt stærsta drykkjafyrirfyrirtæki heims í dag.
Árið 1972 voru öll húsakynni og allt heila klabbið rifið og endurbyggt og síðan þá hefur Caol Ila verið stærsta verksmiðja Ílareyju.
Caol Ila er frá Islay sem fyrr segir en sú eyja er þekkt fyrir reykt viskí svo sem Laphroaig, Ardbeg og Lagavulin svo eitthvað sé nefnt. Þessi ofannefndu eru afar mikið reykt en Caol Ila er skör neðar hvað það varðar. Vissulega mikill móreykur en ekki eins áberandi eins og í þessum nefndu.
Í boði í dag er flaggskipið sem er 12 ára auk Moch sem er léttreykt, Distiller’s Edition sem er að nokkru leyti úr sérrítunnu og 18 ára sem er það sama og 12 ára en augljóslega 6 árum eldra. Það er einhvern veginn þannig með Caol Ila að það tapar reyknum nokkuð hratt með þroskun, hraðar en önnur Islay viskí og því er 18 ára töluvert minna reykt en 12 ára.
Skoðum flaggskipið, hið 12 ára:
Angan: Töluverður reykur fyrst um sinn en nusandi af Islay viskíi þá er hann mun feimnari en af hinum reyksprengjunum frá nágrannaviskíbúum. Reykurinn víkur svo fyrir ávöxtum – það sleppur í gegn ávaxtakeimur, ferskur sítrus, sítrónur, appelsínubörkur, dass af vel þroskuðum perum.
Bragð: Móreykurinn skekur mann fyrst og er viskíið nokkuð feimið fyrst eins og oft er með Islay viskí. Leyfum því að opnast ögn örskotsstund, anda í glasinu. Oft er það þannig með maltviskí að það þarf að gefa þeim tíma, leyfa þeim að venjast því að koma út úr flöskunni, í nýtt umhverfi og aðlagast breyttum aðstæðum.
Til að byrja með er Caol Ila svolítið gróft en síðan, með fyrrgreindum aðferðum, þá opnar það sig og þá losnar um ávexti; það talar til manns á svo margslunginn hátt að allir ættu að finna eitthvað við sitt hæfi. Þarna er móreykur, framandi ávöxtur í bakgrunni, þykk áferð sem þekur góminn vel.
Eftirbragð: Langt og mikið um sig. Aftur, móreykur, einnig svartur pipar, kryddað … skilur eftir sig spor all löng.
Niðurstaða: Caol Ila er fyrir alla viskíunnendur sem vilja smá áskorun, prófa eitthvað nýtt og reyna á bragðlaukana án þess að fara yfir strikið. Caol Ila er nefnilega þannig úr garði gert að það höfðar til margra, nokkuð reykt en lumar á svo yndislega skemmtilegum blæbrigðum, sé því gefið tíma.
Svo er eitt svona í lokin: Góður og vel gerður harðfiskur með ögn af sméri og smá Caol Ila í lokin. Afar farsælt hjónaband.