Glenturret viskíbólið var stofnað árið 1775 og telst því vera elsta starfandi viskíhús Skotlands. Fyrst um sinn var það einungis framleitt til blöndunar og varð ekki þekkt fyrir einmöltunga fyrr en seint og um síðir. Enn er þó mikill hluti framleiðslunnar settur í blöndur og þá aðallega í hið fræga viskí, Famous Grouse, en Glenturret er aðal uppistaða maltsins í þeirri blöndu.
Saga Glenturret hefur verið svolítið stormasöm alla tíð og all oft skipt um eigendur. Í dag er það Edrington Group sem á Glenturret og hefur gert síðan 1999.
Viskíframleiðsla gekk gegnum erfiða tíma snemma á síðustu öld og luktu mörg viskíbólin sínum dyrum og slagbrandi slegið fyrir. Glenturret var þar engin undantekning og árið 1921 var verksmiðjunni lokað, öll tól og tæki fjarlægð og húsakynnin notuð sem geymsla fyrir viskítunnur þar til 1929 en þá voru byggingarnar nýttar sem geymslur fyrir landbúnaðarvörur, bygg og slíkt.
Það var ekki fyrr en árið 1957 að maður að nafni James Fairlie keypti húsakynnin og fyllti þau af viskíframleiðslugræjum frá Tullibardine viskíbólinu sem þá var að ganga gegnum endurnýjun lífdaga. Framleiðsla hófst á ný tveimur árum síðar.
Glenturret skipti um eigendur árið 1981 er Remy Contreau tók yfir og síðan aftur níu árum síðar er Highland Distillers tóku sénsinn. Enn og aftur var verksmiðjan seld árið 1999 er núverandi eigendur tóku við og lögðu áherslu á einmöltunga.
Þá var sett upp aðstaða fyrir áhugasama sem vildu fara í skoðunarferð um verksmiðjuna, sjá framleiðsluferlið, læra og fræðast um allt sem viðkemur Glenturret og jú, smakka afraksturinn. Mjög áhugavert, skemmtilegt og fræðandi auk þess sem umhverfið er mjög fagurt og skógi vaxið. Mælum hiklaust með að áhugasamir skelli sér í þá ferð.
Fjórum árum eftir að Edrington aflaði sér viskíbólið kom út tíu ára einmöltungur sem vakti töluverða eftirtekt og lukku. Reyndar er sá ekki fánlegur eins og er því, eins og gengur með mörg önnur viskíhús nútildags var ekki nægilegt magn framleitt þá til að mæta aukinni eftirspurn í dag. Þess vegna er Glenturret núna án aldurstilgreiningar en í dag eru fáanlegar eftirfarandi sortir: Peated (reykt), Triplewood (þríviður) og Sherrycask (þroskað í sérríámum).
Því er Glenturret í dag ekki með neinn einn hús stíl heldur alla þessa þrjá.
Skautum snarlega yfir þá:
Peated (43%), eða reykta viskíið er ungt, töluvert reykt, ekki mjög digurt og fremur stutt, söltugt, foldarkennt eftirbragð með nettum reyk. Nokkuð kryddað. Aska. Fyrir hverja er Glenturret Peated?
Áhugavert fyrir aðdáendur reyktari viskía á borð við Caol Ila auk þess sem áhangendur Ardmore ættu þarna að finna eitthvað við sitt hæfi.
Glenturret sherry 43%. Hunang, rúsínur, nokkuð létt og sérríhrifin eru nokkuð feimin fyrst um sinn. Hnetur, vanilla. Bragðið er nokkuð öflugra heldur en anganin gaf til kynna. Svolítið mikið um sig, þekur munninn vel, olíukennt. Eftir smá tíma í glasinu opnast það og sérríáhrifin verða meira áberandi. Virkilega vel gert viskí þrátt fyrir ungan aldur. Pottþétt fyrir aðdáendur sætra viskía í átt við Macallan t.a.m.
Þríviðurinn, eða Glenturret Triplewood, 43%. Tvennskonar sérríámur og búrbontunna.
Að okkar mati það sísta í þessum þríleik. Nokkuð þunnt, mikill byggkeimur, greinilega mjög ungt, kannski svolítið of ungt. Fyrir þá sem hafa gengið gegnum dyr viskíverksmiðja, þá bragðast það svolítið eins og anganin sem mætir manni við fyrstu skref. Ekki mikil tunnuáhrif en er þó nokkuð skemmtilegt og áhugavert viskí á ágætis prís. Sérríáhrifin eru varla til staðar og sem fyrr segir, hreinlega afar lítið sem eikin hefur lagt til.
Niðurstaða: Glenturret Sherry er það besta í þessum skemmtilega þríleik en allir ættu þó að finna eitthvað við sitt hæfi. Reykháfarnir glopra í sig Peated, þeir sem eru fyrir þessi sætari viskí ættu að finna eitthvað við sitt hæfi í Sherry og þeir sem vilja viskíin sín ung, ekki of eikarkennd og eru kannski meira fyrir blönduð viskí ættu að skoða Triplewood.