Bestu nýju viskí ársins 2019

Í byrjun nýs árs er ekki úr vegi að líta um öxl og fara yfir nokkur ný viskí sem komu út á liðnu ári. Hérna er það sem stóð upp úr hjá okkur árið 2019, í engri sérstakri röð:

Ardbeg 19 Traigh Bhan. 46.2%

Vanalega sjáum við ekki aldursgreiningar á flöskum frá Ardbeg, en árið 2019 kom frá þeim þessi sprengja. Heil 19 ár, að mestu í amerískri eik en að hluta í oloroso sérríámum. Þetta er fyrsta upplag Traigh Bhan (‘Tri Va’) en þetta mun verða árleg útgáfa héðan í frá. Og við héldum að Ardbeg ætti ekki nægilegt magn í þroskun vöruhúsum til að koma með aldursgreiningar og hvað þá heil nítján ár!

Sígilt Ardbeg en vissulega mýkra en yngri systkin. Fyllra, þroskaðra, meiri ávöxtur, meira af öllu, perur, chilli en umfram allt, móreykur sem er þó mildaður eftir öll árin í eikinni. Algerlega frábært fyrir reykháfana þarna úti. Kostar þó sitt eðli málsins samkvæmt, en vá, þvílík flugeldasýning.


Það er bara alls ekki hjá því komist að velja annað reykt viskí frá Ílareyju, Octomore 10.1.

Octomore kemur frá Bruichladdich framleiðandanum og er Octomore mest reykta viskí sem framleitt hefur verið.

Octomore 10.1 er nokkuð minna reykt en margir bræðra þess eða 107ppm (mest hafa þeir farið í 309ppm). 5 ára gamalt og heil 59.8% alkóhól. Það er þó merkilega aðgengilegt, þó það hljómi eins og það eigi bara alls ekki að vera það. Jafnvel óþynnt rennur það ljúfar niður en manni rennur í grun. Auðvitað er móreykurinn númer eitt, tvö og þrjú en í bakgrunni leynist vanilla, engifer, kanill, pipar, chilli, mold, fallin haustlauf eftir rigningarnótt. Það getur brugðið til beggja vona með Octomore enda hálfgerð tilraunastarfsemi en 10.1 útgáfan steinliggur. Önnur flugeldasýning hjálparsveitanna þarna.


Bruichladdich 2010 Bere Barley 50%

Við ætlum að tilnefna annað viskí frá Bruichladdich, enda framúrskarandi framleiðandi. Enn eitt viskíið frá Ílareyju. Þegar viskíin frá framleiðandanum at arna bera heitið Bruichladdich eru þau óreykt. Bere byggið er erfitt bygg að eima og þrjóskt og gefur minna af sér en aðrar tegundir byggs. Þessa má geta að úr einu tonni annarra algengra byggtegunda fást 450-500 lítrar viskís en úr Bere byggi fást ca. 300 lítrar. Það er tímafrekara og kostnaðarsamara að eima úr því en bragðið er alveg þess virði og vel það miðað við þessa útgáfu.

Þarna koma fram ávextir, bananar, epli, Lyles síróp, hunang, sítrus, apríkósur og kökudeig. Framúrskarandi viskí og eitt það allra áhugaverðasta sem dagsins ljós leit á árinu 2019. Skorum lesendur á að prófa. Það verður enginn viskíaðdándi fyrir vonbrigðum með Bere Barley 2010, það er næsta víst!


Bimber Re Charred 51.9%

Nú vendum við okkar kvæði í kross og segjum skilið við Ílareyju og bregðum okkur alla leið til Englands, nánar tiltekið Lundúna. Þar í borg er nýr viskíframleiðandi sem heitir Bimber.

Þar sem Bimber fyrirtækið var stofnað árið 2015 er ekki mikið um einmöltunga þaðan en sá fyrsti leit dagsins ljós síðla árs 2019 og sló alla kalda. Ótrúlega vel þroskað miðað við ungan aldur. Ávaxtasprengja. Niðursoðnir kokteilávextir, apríkósur, ferskjur, hindber, engifer, karamella. Þykk áferð og olíukennd sem þekur munninn á undursamlegan hátt.

Þrátt fyrir aldurinn er þetta eitt besta viskí ársins 2019 og er Bimber einn mest spennandi viskíframleiðandi heims um þessar mundir.


Highland Park Valfather 47%

Valfather frá Highland Park á Orkneyjum er reyktasta viskí sem þaðan hefur komið eða u.þ.b. 45 ppm. sem er á pari við það sem gerist hjá viskíum Ílareyjar. Það virkar þó ekki eins reykt og frændurnir að sunnan. Mjög digurt um sig, þekur munninn vel með nokkrum móreyk, nokk aggressíft en samt þokkafullt, vanilla, hnetur, hunang, karamella, fjallajurtir, ávextir og pipar.

Virkilega skemmtilegt. Það vitum við fyrir víst að Highland Park á sér marga aðdáendur á Íslandi og þeir bara mega alls ekki láta Valfather framhjá sér fara.

Af þessum lista að dæma þá er nokkuð ljóst að við höllumst svolítið í átt að móreyknum en auk þess er ástæðan sú að hreinlega komu flest mest spennandi, nýju viskíin frá Islay. Það er bara staðreynd.


Aðrar spennandi, nýjar útgáfur sem vert er að minnast á en komust ekki á topp fimm:

Kilchoman 2010

Ardbeg Drum (Ardbeg Day 2019)

High Coast Hav (Svíþjóð)

Kilkerran Heavily Peated

Cotswolds single malt

Deanston Fino finish

 


Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.