Edradour 10

Mynd: http://www.edradour.com

Edradour var í löngum smæsti viskíframleiðandi Skotlands, en í viskísprengingunni sem hefur átt sér stað hafa nokkrar aðrar ,,tekið fram úr“ hvað það varðar, ef svo mætti að orði komast. Hún er þó enn með þeim allra smæstu, með framleiðslugetu upp á einingus um 200.000 lítra á ári, sem er brotabrot af því sem stóru verksmiðjurnar framleiða. Hún heldur þó titlinum sem smæsti, klassíski framleiðandinn enda þær smærri í dag allar spánýjar.  Kjarninn er 10 ára en þó er mikið magn mismunandi undirtegunda fáanlegur.

Þrátt fyrir smæðina er Edradour mikið sótt heim af viskíunnendum og ferðalöngum (sennilega mest heimsótt miðað við höfða- já eða lítratölu) enda afar fallegt bæjarstæði og vel gert við gesti auk þess sem hið fagra þorp, Pitlochry er steinsnar frá. Í Edradour er boðið upp á afar fræðandi og skemmtilega viskítúra um geysifalleg húsakynni í dásamlegu landslagi.

Edradour hefur verið starfandi sleitulaust allt frá opnun árið 1825 en það var ekki fyrr en árið 1986 að fyrsti einmöltungurinn leit dagsins ljós en fram að því var Edradour eingöngu notað til blöndunar. Síðan 2002, er Signatory Vintage keypti verksmiðjuna hefur, sem fyrr segir, merkilega mikið magn einmöltunga verið í umferð og eru menn þar á bær ekki feimnir til að prófa eitthvað nýtt. Þaðan koma, í litlu upplagi jú, viskí úr allskonar tunnum; sérrítunnum, rauð- og hvítvínstunnum og þar mætti telja lengi.

Eins og að ofan er nefnt er kjarninn 10 ára, 40% úr blöndu af búrbontunnum og oloroso sérrítunnum.

Skoðum hann aðeins.

Angan: Sérstök, sérrítunnan heimtar athygli en sú angan kemur ekki fram á sama hátt og við höfum upplifað í neinu öðru viskíi. Afar spes. Nú hiksta einhverjir en lyktin er svolítið olíukennd og minnir á bílvélaolíu. Já ok, ég skil … en samt. Höldum okkur við þetta. Slatti af vanillu, bresk jólakaka sem hefur legið í sérríi lengi. Örlar á söltugum keim og ristuðum möndlum.

Bragð: Nú er eitthvað meira að gerast. Það kemur fram meiri vanilla, oloros-ið er svolítið frekt, hnetur, rúsínur. Svolítið villt bragð til að byrja með en þau finna hvert annað eftir andartak á tungunni. Síðan stekkur fram karamella, brúnaðar kartöflur, krydd og virkar ögn súrt einhvern veginn, en ekki á slæman hátt.

Eftirbragð: Nokkuð langt eftirbragð, rúsínur og negull jafnvel.

Niðurstaða: Eins og sést á lýsingunni okkar þá er Edradour nokkuð einstakt viskí og kannski ekki alveg við allra hæfi. Þú annaðhvort hatar það eða elskar.

Við elskum það, kannski að einhverju leyti vegna þess hve öðruvísi það er, ekki líkt neinu öðru, en jú líka vegna þess að það er fjári bragðgott. Þess ber að geta að framleiðsluaðferðir Edradour hafa nánast alls ekkert breyst frá upphafi. Afar skemmtilegt að smakka í góðra vina hópi og fá mismunandi viðbrögð. Ef eitthvað viskí er til þess fallið þá er það Edradour.

Í lokin má þess geta að Edradour framleiðir einnig reykt viskí, sem nefnist Ballechin. 10 ára útgáfan af því er undraverð, sérstaklega kannski vegna þess að það bragðast eins og viskí frá Ílareyju; saltkeimur, mór, togarakaðlar, gömul díseltrilla og allt sem einkennir þau stekkur fram í Ballechin. Sem er skrítið, því það er jú framleitt í miðjum hálöndunum. Fullkomið fyrir aðdáendur Laphroaig til að mynda.

Við skorum á alla sem hafa ekki smakkað Edradour að gera það sem fyrst en tökum enga ábyrgð!


Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.