The Whisky Show 2019

Viskíhornið lét sig ekki vanta á The Whisky Show í London frekar en fyrri ár. Þar voru 150 sýningarbásar og hvorki fleiri né færri en 940 mismunandi viskí til smökkunar. Nei, við prófuðum þau ekki öll en gerðum okkar besta!

Þessi stærsta viskísýning Bretlands hefur nú verið haldin árlega í um áratug og verður enginn viskíunnandi svikinn af því að stinga þar inn nefinu.

Hér eftir fara nokkur viskí sem við smökkuðum og fönguðu athygli okkar.

Fyrsta viskíið sem við hnutum um er inn var komið var einmöltungur frá Mackmyra, hinu sænska viskíbóli. Það var Motörhead viskíið þeirra. Forvitnin gaus upp en í algeru mótjafnvægi við væntingar. Oft er það jú þannig að þegar viskí og bjór t.d. er nefnt eftir hljómsveitum og tónlistarmönnum, þá jú, getur oft brugðið til beggja vona. Meira hugsanlega spilað inn á að aðdáendur listamannanna kaupi einmitt vegna aðdáunarinnar, frekar en bragðsins. Harkaleg yfirlýsing kannski en í mörgum tilfellum sönn.

Því var væntingum stillt í hóf. Motörhead Whisky er þroskað í nýjum, amerískum tunnum í 5 ár og síðan í um 6 mánuði í Oloroso sérrítunnum. Kom skemmtilega á óvart. Tilgangurinn með fersku eikinni er að ná fram búrbonkarakter og það tókst bara mjög bærilega. Mikil vanilla, krydd, þurrkaðir ávextir. Fremur létt og aðgengilegt og alls ekki eins gróft og maður hefði kannski gert sér í hugarlund.

Þess má geta að Lemmy heitinn, forsprakki Motörhead hljómsveitarinnar hafði hönd í bagga með að velja viskíið og setja það saman. Prufur sendar þeirra á milli þar til Lemmy var sáttur. Ástæðan fyrir því að þeir vildu ná fram nokkrum búrbonkeim er vissulega sú að Lemmy var jú mikið fyrir búrbon, blessaður karlinn. Tengslin við Svíþjóð eru þau að trommari Motörhead til langs tíma er sænskur. Kom skemmtilega á óvart, virkilega gott viskí.

Næst ber að geta viskí sem hefur reynst geysilega vinsælt frá því er það kom út fyrir nokkrum mánuðum. Það er 15 ára Springbank Rum Cask. Ok, nú erum við hjá Viskíhorninu geysilega mikilir Springbank aðdáendur og því voru væntingarnar töluverðar, og vonbrigðin eftir því. Nú verðum við kannski svolítið harkaleg í dómum en þetta er bara alls ekki eins gott og við vonuðumst eftir. Rommtunnan kemur í gegn og gefur sætleika en það er hreinlega eins og þær hafi verið eitthvað gallaðar, myglaðar (sem voru eflaust ekki en bragðið minnti á slíkt). ,,Earthy” moldarbragð, spíraðar kartöflur, slatti af ávöxtum, leður, smá karamella en mjög villt. Bragðið var úti um allt og jafnvægið slakt.

Vonbrigði dagsins en jú, vissulega eru bragðlaukar okkar allra mismunandi.

Glencadam var með stand með allri sinni framleiðslu, en þaðan koma margir mismunandi árgangar, ótrúlega margir miðað við nokkuð lítt þekkta og litla verksmiðju. Glencadam er hugsanlega eftirlætis viskíframleiðandi okkar svona ef þið krefjist svars. Frábær viskí frá austurströnd hálandanna, nokkuð norðan við Dundee. 13 ára, 17 og 21s dreyptum við á. Hvert öðru betra, hvert á sinn hátt og erfitt að velja. Öll best. Miklar, mjúkar ávaxtabombur með nánast fullkomið jafnvægi milli viskívísis og tunnu. Magnað hvað þar næst fram margslunginn ávaxtakeimur.

Írar áttu sína fulltrúa líka og þaðan var viskí sem er vert að nefna, Lambay. Einn einmöltungur og einn blöndungur. Lambay er sáralítil eyja undan austurströnd Írlands, nokk norðan við Dublin. Viskíin þaðan eru þroskuð að mestu í gömlum búrbon tunnum en síðan skutlað yfir í gamlar koníakstunnur frá Camus. Niðurstaðan er dásamleg. Klassískt, írsk. Grösugt, blómlegt, ferskt og koníakstunnurnar gefa dásamlega dýpt. 100% þess virði að prófa hnjóti lesendur um flösku.

Eins og lesendur hafa kannski orðið varir við gegnum tíðina er Viskíhornið mikið fyrir Highland Park. Þarna var nýja þriggja binda serían frá þeim; Valkyrie, Valknut og Valfather.

Valkyrie er örlítið reykt, svipar til 12 ára kjarnans en virkar öllu meira um sig. Valknut er síðan ögn meira reykt og svo er það Valfather sem er reyktasta viskí sem Highland Park hefur nokkru sinni framleitt. Öll framúrskarandi og þarna finna allir eitthvað við sitt hæfi.

Ein allra vanmetnasta viskíverksmiðja Skotlands hlýtur að vera Glentauchers frá Speyhéraði. Mest af framleiðslunni fer í blönduð viskí svo sem Buchanan’s, Black&White og Ballantine’s svo einmöltungar eru ekki á hverju strái. Þeir sem við höfum dreypt á hafa allir verið afskaplega góðir. Óreykt, létt (minnir kannski um ögn á Glencadam). Þarna var 21s árs Glencadam og auðvitað stóðumst við ekki mátið. Þvílík sprengja á tungunni. Ávaxtabomba, sítrus, nokkuð sætt, engifer. Eitt allra besta viskí sem Viskíhornið hefur smakkað undanfarið.

Tomatin var á sínum stað. Þar bar helst að geta 36 ára og einnig 1975 árganginn. Tomatin er önnur vanmetin verksmiðja sem aðdáendur viskía í léttari kantinum og með smá hunangssætu ættu ekki að láta fram hjá sér fara. 1975 árgangurinn er dásamlegur, svo mikið að gerast. Framandi ávextir, þurrkaðir ávextir, hunang, krydd, dökkt súkkulaði og allt þetta vinnur svo vel saman á tungunni. Úr verður alger bragðsprengja. Kostar vissulega sitt og allir eru sennilega sammála um að kassinn sem flaskan kemur í sé svolítið yfirdrifinn (sjá mynd). Kannski fólk þar á bæ ætti aðeins að draga úr þar og gera þá flöskuna ögn viðráðanlegri í verði en hún kostar um hálft þriðja þúsund punda. Kjarnaframleiðslan frá Tomatin er einnig verulega gómsæt.

Það er vissulega allt of langt mál að tala um allt sem var dreypt á þennan daginn og hér að ofan er það helsta.

Við ætlum að krýna tvo sigurvegara viskísýningarinnar.

Í flokki nýlegra verksmiðja er það Bimber, frá Park Royal í Vestur Lundúnum. Bimber er einungis um fimm ára gamalt fyrirtæki en viskíin frá þeim eru strax framúrskarandi og maður myndi halda að þau væru töluvert eldri. Ótrúlega vel þroskuð miðað við ungan aldur.

Framleiðsla hófst einungis fyrir tæpum fjórum árum síðan og var fyrsti einmöltungurinn að líta dagsins ljós nýlega. Hann sló okkur gersamlega svellköld, sérstaklega verandi þetta ungur. Spennandi að smakka framleiðslu þeirra þegar fram í dregur en þetta er ein mest spennandi nýja viskíverksmiðja Bretlands í dag.

 

Í flokki eldri verksmiðja er það 34 ára Miltonduff, eintunnungur eimaður á því herrans ári 1983.

Virkilega eitt það allra besta viskí sem við höfum smakkað alla okkar hunds- og kattartíð í bransanum. Alger flugeldasýning á tungunni, þykk áferð, appelsínur, engifer, töluverð eik.

Þess má geta að annar viskíframleiðandi frá Lundúnum var með sinn fyrsta þriggja ára einmöltung þarna einnig, East London Liqueur Company. ELLQ og Bimber mátuðum við saman og það var engin spurning hvoru megin sigurinn lenti. Bimber tók þetta 4-1.

Virkilega skemmtileg hátíð, margt að smakka og sjá, skrá og skrafa, spjalla og spá. Hlökkum til næsta árs.


Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.