Arran 10

Arran er eina viskíbólið á eyjunni Arran í dag en á 19. öld voru þar rétt um fimmtíu verksmiðjur, hvorki meira né minna. Sumar kannski ekki alveg löglegar segir sagan, en jú Arran eyja var mjög þekkt fyrir umfangsmikla viskíframleiðslu á árum áður.

Sú síðasta af þessum aragrúa viskíframleiðenda lokaði árið 1837. Arran verksmiðjan opnaði 1995 og því var eyjan viskílaus í um 158 ár!

Sem fyrr segir, þá tóku nokkrir aðilar sig saman árið 1994 og stofnuðu Arran verksmiðjuna og hófst framleiðsla árinu síðar. Þrátt fyrir að framleiðslan hafi hafist einungis ári eftir stofnun fyrirtækisins, þá tafðist opnunin ögn vegna gullarnahjóna sem gerðu sér hreiður í nýju húsakynnunum, en gullernir eru með öllu friðaðir (og vissulega einnig fiðraðir) á eyjunni. Þeim hjónum var gefið rúm til að klekja út sínum ungum og að því loknu hófst starfsemi að fullu.

Mest af framleiðslunni fer í þeirra eigin einmöltunga en einnig eru fáanlegar blöndur frá Arran (ekkert er sent til annarra blöndunarfyrirtækja) svo sem Robert Burns blandan. Þess má geta að Arran er eini viskíframleiðandi Skotlands sem hefur leyfi til að nota nafn og ímynd þessa þjóðarskálds Skota á sína framleiðslu (Auld Lang Syne .. og allir með!) Að auki kemur þaðan Lochranza blandan (Lochranza er þorpið sem verksmiðjan er í, það nyrsta á eyjunni) og ef menn eru þannig impónaðir þá má fá þaðan Arran rjómalíkjör.

Arran viskí er algerlega óreykt þrátt fyrir að vera eyjaviskí og næstu nágrannar t.d. Ílareyju en eyjaviskíin á vesturströnd Skotlands eru þekkt fyrir mikinn reykjarkeim. Á þessu er þó undantekning og þá heitir viskíið Arran Machrie Moor og er léttreykt.

Þess ber að geta að nýverið opnaði Arran nýverið aðra verksmiðju á suðurströndinni, í Lagg og þar verða eingöngu framleidd mikið reykt viskí. Framleiðsla þar hófst í apríl 2019.

Kjarninn er Arran 10, átappað 46%. Skoðum það aðeins.

 

Angan: Létt, fersk, sítrusávextir, vanilla, krydd

Bragð: Skemmtilega létt, ferskt, aðgengilegt þrátt fyrir að vera 46% alkóhól. Rennur hættulega vel niður. Epli, geysimikill ávaxtakeimur. Vanilla.

Eftirbragð: Fremur langt miðað við hversu létt og aðgengilegt viskíið er. Virkilega skemmtilegt.

Niðurstaða: Frábært viskí á góðu verði, jafnt fyrir nýliða sem og lengra komna. Það er ekki hægt að hæla Arran nógu mikið sérstaklega þegar bragð og peningavægi er tekið í reikninginn.


Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.