Glen Elgin er sögufræg og gömul verksmiðja staðsett í Speyhéraði. Sú var stofnuð árið 1898 og er í eigu drykkjarisans Diageo. Hún hefur verið starfandi allt frá stofnun ef undanskilin eru árin 1992-1995 þegar henni var lokað vegna uppfærslu á eimurum og húsnæðið tekið í gegn. Þar eru framleiddir mjúkir einmöltungar sem leyna verulega á sér.
Töluvert magn framleiðslunnar fer í hina goðsagnakenndu White Horse blöndu og því er ekki mjög mikið um einmöltunga frá Glen Elgin. Kjarninn er 12 ára en auk þess má fá í litlum upplögum, Glen Elgin viskí frá átöppunarfyrirtækjum svo sem Gordon&McPhail og Signatory.
Sem fyrr segir er kjarninn 12 ára. Skoðum það aðeins.
Angan: Möltugt, vanilla, krydd, hunang, rúsínur.
Bragð: Bragðmeira en anganin gaf til kynna. Olíukennt, þykkt, sætt (hunang). Töluverð eik, þurrkaðir ávextir (rúsínur), cappuchino. Rennur afskaplega ljúflega niður.
Eftirbragð: Nokkuð langt, sætt, vanilla, rjómasúkkulaði.
Niðurstaða: Viskí sem leynir verulega á sér. Glen Elgin er ekki mjög þekkt verksmiðja en framleiðir framúrskarandi, sígilda Speyside einmöltunga.
Fyrir hverja er Glen Elgin?
Fyrir hvern þann sem er fyrir Speyside viskí á borð við Glenfiddich, Glenlivet og þess háttar.
Hnjótið þið um flösku er vel þess virði að prófa því þetta er afar ljúffengt og vanalega á mjög góðu verði.