Ardmore

Í gegnum tíðina hafa margar viskíverksmiðjur einblínt á blöndur þar sem jú, þær eru uppistaða viskísölu á heimsvísu. Undanfarin ár hefur viskíáhugafólk þó orðið ögn ,,dannaðra” og rennt hýru auga til einmöltunga. Síðan 2011 hefur sala blandaðra viskía dregist töluvert saman á meðan sala einmöltunga hefur aukist umtalsvert. (Tölur frá 2017: Blöndur -18%, einmöltungar +23%). Meira hér um topp 10 söluhæstu maltviskí í heiminum.

Því hafa margar verksmiðjur aukið við sig eimurum og farið að framleiða einmöltunga í auknum mæli. Gott dæmi um það er Ardmore frá Aberdínskíri.

Þar til fyrir nokkrum árum síðan fór nánast öll framleiðsla Ardmore í Teacher’s blönduna og hefur gert frá því að verksmiðjan var stofnuð árið 1898, en hún var byggð eingöngu til að framleiða maltviskí í þá tilteknu blöndu.

Með aukinni eftirspurn eftir ,,single malt” hefur Ardmore aukið við sig og hefur salan margfaldast undanfarna tvo áratugi eða svo.

Kjarninn er Ardmore Legacy (40%), sem er án aldursgreiningar og er að verða auðveldara og auðveldara að nálgast. Einnig er hægt að fá 25 og 30 ára en eins og gefur að skilja koma þær útgáfur í takmörkuðu upplagi.

Hvernig ætli Ardmore Legacy bragðist síðan?

Hálöndin eru gríðarlega víðfeðmt svæði með mörg mismunandi viskíhús. Flest viskíin þaðan eru óreykt eða afar lítið reykt og er Ardmore ein undantekninga, en það er léttreykt eða 12-16 ppm (phenols per million) sem er rétt undir því sem tíðkast hjá Talisker, sem fleiri kannski kannast við.

Reykurinn kemur öðruvísi fram en hjá reyktum strandviskíum; hann er einhvern veginn þurrari og það verður ekkert vart við strandkeiminn sem einkennir t.d. Talisker og viskí frá Ílareyju.

Angan: Hunang, vanilla, svolítil sæta og sítrus. Einnig töluverður reykur.

Bragð: Aftarlega á tungunni verður vart við súkkulaðikeim, þarna er vanilla, hunang, ber í dekkri kantinum og móreykur sem virkar afar vel með öllu hinu.

Eftirbragð: Millilangt, krydd og reykjarkeimur.

Fyrir hverja er Ardmore eiginlega?

Ardmore er margslungið og fjölhæft viskí sem ætti að höfða til margra, hvort sem verið er að taka fyrstu skref inn í heim reyktra viskía eða að trappa sig niður úr reykbombunum niður í eitthvað ögn mildara.

Auk þess fæst það á afar góðu verði vanalega. Virðist ekki fáanlegt í Vínbúðum en á gervihnattaöld, þar sem tíminn líður hratt, er hægt um vik að panta erlendis frá, nú auk þess sem Íslendingar ferðast út fyrir steina landsins sem aldrei fyrr.

Viskíhornið mælir sterklega með Ardmore. Vanmetið gúmmelaði.


Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.