Glenglassaugh er í senn ný og gömul verksmiðja í hálöndunum, rétt norðan Spey héraðs.
9. áratugur sl. aldar var viskíframleiðendum afar erfiður og lokuðu þá hvori fleiri né færri en 17 verksmiðjur á árunum 1983 til 1986, sumar alfarið og húsakynnum breytt eða rifin og græjur seldar en nokkrar lokuðu með það í huga að opna á ný og húsakynnum og græjum haldið við (e. mothballed).
Ein þeirra sem opnaði á ný var Glenglassaugh en starfsemi var hætt árið 1986. Árið 2008 tóku nokkrir aðilar sig saman og endurvöktu verksmiðjuna af 22 ára svefni.Þetta var þó ekki í fyrsta sinn sem henni var lokað en það gerðist einnig árin 1908 (enduropnuð 1931) og 1936 (enduropnuð 1960).
Virkilega vel hefur verið staðið að þessari enduropnun og engu til sparað. Fljótlega eftir upprisuna árið 2008 var ljóst að meira fjármagn þyrfti í reksturinn til að halda áfram og var verksmiðjan sett á sölu. Benriach Distillery Co. keypti, árið 2013 en það fyrirtæki var síðan selt til drykkjarisans Brown Forman nýlega.
Þar sem engin framleiðsla var í gangi á árunum 1986 til 2008 fæst eingöngu fremur ungt viskí þaðan eða verulega gamalt. Þau eldri sem í boði eru, eru 26, 30, 35 og 41s árs og eru þau silkimjúk og með ákaflega ríku ávaxtabragði.
Kjarninn í dag er Glenglassaugh Evolution, sem er ca. 4-5 ára en þrátt fyrir ungan aldur er það virkilega vel þroskað enda vandað vel til allra verka.
Hvernig bragðast Evolution? 50% alkóhól, þroskað í Dickel Tennessee viskítunnum.
Angan: Mikill ávöxtur, græn epli, ferskjur, karamella og vanilla. Svolítið ágeng sem skýrist af þessu háa alkóhólinnihaldi. Þarf smá tíma í glasinu til að róa sig niður.
Bragð: Vanilla, eik, krydd, engifer, karamella, vanilluhristingur, hunang. Áferðin er merkilega olíukennd.
Eftirbragð: Ekki mjög langt en skilur eftir sig vanillu, krydd og ekki laust við að það sé þarna vottur af engifer.
Niðurstaða: Frábær endurkoma hjá viskíbóli sem var sárt saknað í mörg ár og verður mjög spennandi að sjá hvernig það bragðast eftir nokkur ár í viðbót. Verulega efnilegt fyrir alla unnendur viskís í léttari kantinum.
Fyrir reykháfana verðum við að minnast á Glenglassaugh Torfa sem kom út árið 2014 og er töluvert mikið reykt. Vel þess virði að prófa hafi fólk tök á.