Ardbeg Day 2019

Hin árlega Ardbeg Day hátíð var haldin í 9. sinn nýverið í Regent’s Park í Lundúnum og Viskíhornið lét sig ekki vanta þar frekar en fyrri daginn, eða árin. Á þessum degi er kynnt ný útgáfa, í fremur takmörkuðu upplagi sem safnarar og viskíkúnstnerar láta ekki framhjá sér fara. Að þessu sinni var Ardbeg Day útgáfan nefnd Ardbeg Drum, en sú var þroskuð að hluta í rommtunnum frá Guyana í Karabíska hafinu og sennilega í tunnum sem áður fyrr innihéldu hið sívinsæla og afar sæta El Dorado romm.

Að vanda var allskyns húllumhæ í gangi, skoskir hálandaleikir eins og staura- og stígvélakast í bland við ýmiskonar athæfi, skemmtunum, hanastélum (sem innihéldu Ardbeg vissulega) og tónlistaratriðum sem tengdust Mið-Ameríku.

Virkilega skemmtilegur dagur en jú, ástæðan fyrir veru okkar þar var nýja Ardbeg viskíið, Drum. Sem fyrr segir höfum við hjá viskíhorninu verið viðstödd Ardbeg Day hátíðahöldin öll þessi 9 ár og verður að segjast að misjafnlega hefur tekist til varðandi viskíið. Ardbeg Auriverdes frá 2014 er dæmi um algerlega misheppnað Ardbeg og lítið meira um það að segja. Kelpie frá 2017 er dæmi um afar vel heppnað Ardbeg Day viskí.

Áður en lengra er haldið þá skulum við rétt renna yfir Ardbeg Day viskíin:

2011: Alligator

2012: Day

2013: Ardbog

2014: Auriverdes

2015: Perpetuum

2016: Dark Cove

2017: Kelpie

2018: Grooves

2019: Drum

Drum er dæmi um gríðarlega vel heppnaða útgáfu. Rommtunnan skín í gegn, bæði í nefi og á tungu. Heilmikil, sæt rommáhrif. Mikil karamella, framandi ávextir í átt við ananas og léttari reykur en maður á að venjast frá Ardbeg. Verðum líka að nefna að það var óvenju salt, en á góðan máta. Eftir að hafa kjamsað á veigunum drykklanga stund og vegið og metið allt það sem réðst á bragðlaukana úr öllum mögulegum áttum, þá sat karamellan og súkkulaðikeimurinn eftir og hið óhemju langa eftirbragð minnti einna helst á Daim súkkulaðistykki, í bland við góðan, handvafinn Kúbuvindil.

Sérlega vel heppnað viskí sem óhætt er að mæla með fyrir reykstrompana sem lesa þetta.

Ardbeg negldi Ardbeg Day viskíið þetta árið!


Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.