Glenmorangie 10

Glenmorangie er í hálöndunum, í Ross-skíri, við Dornoch Firth flóa rétt milli Inverness og Brora á norðausturströnd Skotlands. Meira um skosku landsvæðin hér.

Verksmiðjan var opinberlega stofnuð árið 1843 og hefur starfað sleitulaust síðan ef undanskilin eru árin 1931 til 1936 og var Glenmorangie ein sú fyrsta til að markaðssetja maltviskí erlendis, á eftir Glenfiddich, Glenlivet og Macallan og endurspeglast sú þróun í þeirri staðreynd að þessi fjögur viskí eru enn þann dag í dag þeir fjórir einmöltungar sem eru hvað söluhæstir í dag. Frumkvöðlar í útbreiðslu skosks maltviskís. Gott að vera fyrstur, en jú þá þarf viskíið líka vissulega að vera gott og því er sannarlega að heilsa hjá Glenmorangie. Heimildir segja reyndar að viskíframleiðsla þar hafi hafist hugsanlega árið 1703 en þá án ríkisleyfis. Þær heimildir eru þó á reiki en ljóst er að Morangie fjölskyldan hóf viskíframleiðslu þarna löngu áður en Glenmorangie fékk opinbert leyfi til framleiðslu og sölu.

Árið 1981 sló Glenmorangie upp auglýsingaherferðinni ,,The 16 Men of Tain” og voru frumkvöðlar í slíku þar sem einblínt var á einmöltunga sem handiðn/listiðn og áhersla lögð á hversu mikil natni og gaumgæfni fer í gerð einmöltunga og áhersla lögð á persónurnar sem stóðu henni að baki. Fram að því var ekki mikil áhersla lögð á slíkt.

Verksmiðjan sú notast við hæstu potteimara sem tíðkast í framleiðslu skoskra einmöltunga sem gefa frá sér afar léttan spíra því bakrennslið úr hálsum eimaranna er gríðarmikið sem þýðir að vökvinn sullast í eimurunum lengur en gengur og gerist.

Glenmorangie er nokkuð stór framleiðandi með um sex milljónir lítra á ársgrundvelli og eru nokkuð margar útgáfur í boði og mismunandi fyrir mismunandi markaði sem og fríhafnir.

Nefnum nokkrar en við tökum svo síðan standardinn, þann 10 ára til kostanna. Auk hans eru í boði Quinta Ruban sem er vanalega 12 ára að hluta úr púrtvínstunnu, 12 ára Nectar D’or úr Sauterens víntunnu og Lasanta sem kemur að hluta úr sérrítunnu auk annarra útgáfa sem erfiðara er að nálgast.

Skoðum 10 ára kjarnann.

Angan: Ferskir ávextir, karamella (minnir á Werther’s Original molana). Sítrus, ferskjur.

Bragð: Mikil vanilla, afar létt og ferskt, ávextir (appelsínur) og þessi karamellukeimur sem minnir sterklega á Werther’s Original lætur á sér kræla.

Eftirbragð: Ekki það lengsta í bransanum enda er ekkert verið að reyna það. Létt og ferskt viskí sem ætti að höfða til flestra viskíunnenda, nýrra sem reyndari.

Fyrir hverja er Glenmorangie?

Eiginlega alla sem eru fyrir viskí. Lauflétt og skemmtilegt en leynir vel á sér. Pottþétt fyrir aðdáendur léttari hálendinga sem og þá sem eru fyrir þyngri viskí og vilja kannski trappa sig aðeins niður.

Glenmorangie 10 er fáanlegt í flestum Vínbúðum, flutt inn af Agli Skallagrímssyni og fæst á mjög sanngjörnu verði.


Færðu inn athugasemd

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.