Nýverið skrapp Viskíhornið á kynningu hjá hinni sænsku High Coast viskíverksmiðju þar sem vörur þeirra voru kynntar gaumgæfilega undir handleiðslu yfirmanns framleiðslunnar þar, Roger Melander.
Þrátt fyrir að nafnið hljómi framandi þá kannast kannski sumir við þetta viskí. Frá stofnun, árið 2010 og fram til 2018 hét verksmiðjan sem og viskíið nefnilega Box Whisky. Í Vestur Lundúnum er viskíblöndunarfyrirtæki sem heitir Compass Box. Forráðamenn þess voru eitthvað ósáttir við þessa nafngift og sérstaklega eftir að Box fór að hasla sér völl í Bretlandi. Þá var þeim nóg boðið og hótuðu lögsókn vegna nafnsins Box. Svíarnir vildu halda friðinn og strjúka kviðinn og ákváðu að það væri ekki þess virði að fá á sig lögsókn frá Compass Box og bara breyttu nafninu í High Coast, en þar er verksmiðjan einmitt staðsett, á austurströndinni norðan Sundsvall.
Kjarninn frá High Coast í dag eru þrjú viskí:
Hav, Älv, Timmer og auk þess hið takmarkaða Projekt 63
Älv (46%) eða ,,á” er nefnt eftir ánni sem verksmiðjan stendur við, Ångermanälven. Þar er notast við 100% óreykt bygg. Afar létt, mjúkt, fágað með mikla vanillu, þroskað í búrbontunnu í sex ár. Ef ætti að bera það saman við eitthvað þekktara viskí mætti kannski nefna létta hálendinga á borð við ungt Balblair úr búrbontunnu og auk auk þess dettur manni í hug japanskt viskí, Chichibu og ungt Yamazaki t.a.m. Afskaplega elegant og aðgengilegt. Sem fyrr segir, mikil vanilla, dálítil eik. Ekki flóknasta viskí veraldar en er heldur ekkert að reyna það. Pottþétt byrjendaviskí.
Hav (48%) eða ,,haf” eins og glöggir hafa kannski áttað sig á er úr 25% reyktu byggi og 75% óreyktu. Hav er forþroskað í nýrri, amerískri, ungverskri og sænskri eik í þrjá til fjóra mánuði áður en því er svo skellt í búrbontunnur í allt að fjórum árum. Þegar notast er við ferska eik er algengara er að lokaþroskun fari fram í henni eftir nokkur ár í t.d. búrbontunnu en hérna snúa Svíarnir þeirri hefð á hvolf og byrja í nýrri eik. Fersk eik á það til að gefa svolítið svona pappakassabragð/lykt (ímyndið ykkur lyktina sem var af pappakössunum þegar þið fluttuð síðast) sem er ekki allra en með því að byrja þroskunina í stuttan tíma í nýrri eik verður ekki vart við slíkt.
Þetta reykta bygg virðist hafa verið svolítið frekt og vill ana sér fram, olnboga sig áfram og minna á sig. ,,Halló, hér er ég!”. Reykurinn minnti okkur svolítið á ungt Talisker, svona léttreykt og kryddað. Ungt vissulega, enda er High Coast ekki gömul verksmiðja, en virkilega vel samsett enda veit Hr. Melander algerlega hvað hann syngur. Ástríðan sem maðurinn hefur fyrir framleiðslunni hlýtur að eiga sér fá fordæmi. Frábært viskí sem höfðar til þeirra sem vilja sinn dropa léttreyktan, svolítið saltan og kryddaðan.
Þriðja kjarnaviskíið er Timmer eða, jú Timbur. 48% og 46ppm.
Í Timmer er notast við 100% reykt bygg og er þetta því mikil reyksprengja. 5-6 ára og eingöngu úr búrbontunnum. Þarna kemur fram reykjarmökkur í átt við Caol Ila. Við skulum ekki fara alla leið að Ardbeg en og þó, jú í áttina. Mikill móreykur en hann jafnast út eftir stutta stund í glasinu og þá anar sér fram ávaxtakeimur. Sem fyrr segir er Timmer pottþétt fyrir aðdáendur reyktra Skota í átt við Caol Ila.
Projekt 63 er skemmtilegt viskí þar sem talan 63 kemur mikið við sögu. Roger Melander áttaði sig á því að vöruhús þeirra í High Coast liggur á 63. gráðu norðlægrar breiddar. Hann hugsaði með sér hvort ekki væri hægt að leika sér eitthvað með þá tölu og úr varð þessi sprengja. Ok, byrjum á upptalningunni:
Projekt 63 er þroskað í 63 mánuði í 63ja lítra tunnum, átappað 63% alkóhól, þroskað í 63. röð í vöruhúsinu, 63 metra yfir sjávarmáli. Vissulega eru 63 lítra tunnur ekki á hverju strái og því þurfti að smíða þær. Kom á daginn að beykirinn sem það gerði var fæddur árið 1963!
En verðið skýtur skökku við, það kostar ekki 63 pund í Bretlandi sem olli gríðarlegri hneykslan meðal viðstaddra! Í sænskum krónum var, skilst okkur tölunni 63 komið að í verðinu á einhvern hátt svo þessi yfirsýn verður fyrirgefin að einhverju leyti.

Hvernig bragðast Projekt 63 síðan?
Þetta er eiginlega algert tröll þetta viskí. Gríðarlega bragðmikið og ræðst á mann af hörku hafi maður ekki varann, eða vatnið á. Ráðist það á mann af offorsi er um að gera að hafa vatn við hönd til að róa skrímslið niður. Með dágóðri gusu slakar það á, leggst manni í kjöltu og malar. Örlítill reykjarkeimur, mikill ávöxtur (okkur datt dökkir, þurrkaðir ávextir í hug og ofþroskaðar plómur. Vel kryddað og skemmtilegt. Það er í afar takmörkuðu upplagi vissulega en hnjóti þið um flösku þá er það vel þess virði að reyna að temja þessa skepnu.
Í dag eru 17 viskíframleiðendur í Svíþjóð og þeirra þekktast er Mackmyra sem margir ættu að kannast við. Mackmyra er það viskí sem flestum flýgur í hug er minnst er á sænskt viskí, en High Coast er virkilega farið að naga í hælana og það fast! Jafnvel búið að éta sig fram að tám.
Afar gott kvöld að baki og óhætt að mæla með að prófa High Coast viskíin. Þess má geta að High Coast viskíin eru öll án litarefna og volgsíuð.