Auchentoshan er sérstakt viskíból að því leyti að þar eru öll viskí þríeimuð rétt eins og gengur og gerist á Írlandi. Skosk viskí eru nefnilega vanalega tvíeimuð (eina verksmiðjan sem þríeimar einnig er Hazelburn/Springbank í Campbeltown). Þríeimunin skilar sér í léttari og ferskari spíra, hugsanlega einfaldari en á móti kemur að Auchentoshan er þroskað í mjög líflegum tunnum, oft sérrítunnum sem gefa meiri dýpt.
Það hefur verið lenska hjá láglandaviskíum gegnum aldir að eima þrisvar en það eru bara ekki margar verksmiðjur eftir þar og er Auchentoshan eini láglandaframleiðandinn sem heldur naglfast í þá hefð.
Auchentoshan er staðsett í norð-vestur Glasgow og fyrir áhugasama, þá er þar boðið upp á skemmtilega og fróðlega verksmiðjutúra.
Kjarninn hjá Auchentoshan er 12 ára og sem og þríviðurinn, Three Wood.
12 ára er þroskað í blöndu af búrbon og -sérrítunnum. Afar létt og fágað.
Angan: Sítrus, vanilla (creme brulee), hnetur, grösugt.
Bragð: Meiri sítrus, engifer, hnetur.
Sígilt Láglandaviskí. Létt, aðgengilegt, þægilegt. Ekki flóknasta viskí veraldar en hittir beint í mark þegar maður vill bara eitthvað lauflétt og mjúkt.
Auchentoshan Three Wood er eins og nafnið gefur til kynna, þroskað í þrennskonar tunnum, þ.e. búrbontunnu og tvennskonar sérrítunnum; Pedro Ximènez og Oloroso.
Angan: Þurrkaðir ávextir, rúsínur, döðlur, karamella. Minnir svolítið á gamalt romm.
Bragð: Digurt og mikið um sig. Dökkt súkkulaði, kirsuber, kokteilávextir í niðursuðudós (!) Mikill kryddkeimur. Negull, kanill.
Afar bragðmikið, þekur munninn vel og er með afar langt og þægilegt eftirbragð.
Pottþétt fyrir aðáendur dekkri viskía úr sérrítunnum á borð við Macallan, Glendronach, Glenfarclas og Aberlour svo eitthvað sé nefnt.