Dagur heilags Patreks

Þann 17. mars í ár, sem og fyrri ár, halda Írar upp á dag heilags Patreks, eða St. Patrick’s Day með pompi og prakt, hoppi og híi sem á sér fáar hliðstæður. Írar fylla bari um alla trissur, skála í Guinness og viskíi, íklæddir græna þjóðarlitnum og gera sér glaðan dag. Slík er gleðin að margir brotnir af öðrum bergum slást í hópinn og samgleðjast frændum okkar Írum.

Tengsl Íra við viskí eru vissulega sterk enda er af flestum talið að eimun viskís hafi hafist þar, og þá jafnvel fyrir tilstilli sjálfs Patreks, hins heilaga. Þá er alls ekki úr vegi að skoða Paddy’s viskíið, sem er samofið viskísögu Íra og ein þeirra frægasta afurð, fjórða mest selda írska viskíið er þetta er skrifað.

Cork Distillery

Paddy’s er frá Cork á suður Írlandi, en Cork Distillers fyrirtækið varð stofnað árið 1867 er fjórar minni verksmiðjur runnu saman. Viskíið sem nú er kallað Paddy’s var þegar framleitt í einni af þessum fjórum verksmiðjum allt frá árinu 1779.

Árið 1882 réði fyrirtækið ungan sölumann að nafni Patrick ,,Paddy” O’Flaherty. Sá ferðaðist vítt og breitt um allar koppagrundir og kynnti viskí frá þessu nýja fyrirtæki. Kynningar kauða urðu svo vinsælar að nafn hans varð samofið viskíinu. Orðsporið breiddist út og barir bókuðu kynningar og pöntuðu flöskur frá Paddy; óskuðu eftir þessu ,,Paddy viskíi þarna” því viskíið sem hann kynnti var nefnt hinu óþjála nafni Cork Distilleries Company Old Irish Whiskey.

Árið 1912 ákvað Cork Distillers hreinlega að nefna viskíið eftir þessum sölumanni sem stóð sig svo gríðarvel og til varð vörumerkið Paddy’s Whiskey, sem er 3ja til 7 ára gamalt.

Paddy’s er þríeimað, eins og Íra er von og vísa, blanda einmöltungs úr potteimara, blöndu úr potteimara og kornviskís úr síeimara.

Hvernig bragðast Paddy’s síðan?

Angan: Létt, grösugt, örlar á karamellu og vanillu.

Bragð: Greinilega ungt, ber töluverðan keim af kornviskíinu úr síeimaranum en þó er þarna í bakgrunni töluverður maltkeimur enda er maltviskíinnihaldið töluvert hátt miðað við margar aðrar blöndur. Vanilla. Örlítil hunangssæta.

Eftirbragð: Stutt, létt, staldrar ekki lengi við enda er þarna alls ekki meiningin að gera flóknasta viskí veraldar heldur létt viskí sem er við margra hæfi, kannski sérstaklega fólks sem er ekki vant að drekka lífsins vatn. Hentar einnig vel til blöndunar, þ.e. í hanastél.

Fyrir hverja er Paddy’s eiginlega?

Sem fyrr segir er þetta mjög aðgengilegt viskí sem höfðar til margra. Sennilega stökkva margir sem kalla sig viskífræðinga upp á nef sér er Paddy’s er nefnt á nafn en þarna er gott, létt og aðgengilegt viskí.


Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.