Knockando er gömul Speyside verksmiðja, stofnuð árið 1898 og hefur starfað sleitulaust síðan. Fremur smá verksmiðja og lítt þekkt í Evrópu en viskíið er mjög eftirsótt í Bandaríkjunum. Það má sennilega rekja til þess að á 4. áratug sl. aldar var J&B blandan búin til og sett á Bandaríkjamarkað til að höfða til þeirra þar er höfðu smekk fyrir léttari, aðgengilegri dropa en á þeim tíma var mikil eftirspurn eftir léttu viskí sem móðgaði bragðlaukana ekki um of. Aðal einmöltungurinn í blöndu þeirri kom frá Knockando. (Aðrir tveir einmöltungar koma við sögu í þeirri blöndu, Glen Spey og Strathmill auk kornviskía héðan og þaðan).
Knockando er létt, aðgengilegt, mjúkt Speyside viskí.
Angan: Létt, blómlegt, grösugt. Ávöxtur, örlítið eins og súkkulaðihúðaðar, þurrkaðar bananaskífur.
Bragð: Hunang, dass af engifer. Minnir ögn á þroskaðan banana. Nettur súkkulaðikeimur.
Eftirbragð: Miðlungs, örlítið krydd/pipar, vanilla.
Fyrir hverja? Aðdáendur léttra, aðgengilegra viskía sem eru ekki of ágeng. Glenfiddich, Glenlivet, Glenmorangie svo e-r séu nefnd.