Kingsbarns vs. Cotswolds

Eins og viskípælarar vita þá er gósentíð í viskíbransanum um þessar mundir og margar nýjar verksmiðjur opnað nýverið eða eru um það bil að opna. England er engin undantekning en þar hafa nokkrar komist á koppinn nýverið en England hefur ekki beint verið þekkt fyrir viskíframleiðslu gegnum tíðina. Ein þessara nýju er í Cotswolds í Gloucesterskíri, norð-vestur af höfuðborginni, Lundúnum, stofnuð árið 2014. Í Fife, norðan Edinborgar í Skotlandi er önnur ný verksmiðja, Kingsbarns sem stofnuð var sama ár.

Nú nýverið gáfu þessar tvær verksmiðjur út sína fyrstu einmöltunga, jafn gamla, framleidda og þroskaða á mjög svipaðan hátt, báðir að hluta úr rauðvínstunnum. Okkur fannst þetta áhugavert og ákváðum að etja saman þessum tveimur viskíum og sjá hvort myndi sigra.

Kingsbarns, 3ja ára, 46%. 90% búrbontunna, 10% víntunna.

Þetta er eitt það skrítnasta viskí sem við höfum smakkað að því leyti að munurinn milli lyktar og bragðs er stjarnfræðilegur. Það lyktar ekki vel, eiginlega bara alls ekki. Ofsalega sterk, ágeng, kemísk lykt. Naglalakk, málningarþynnir og slíkt, sem jú, er ekki mjög kræsilegt en með góðum vilja má greina smá ávöxt, sér í lagi banana og jú, snefil af grænum eplum. Mikill byggkeimur og ofsalega greinilegt að þetta er mjög ungt viskí.

Bragðið hinsvegar er bara nokkuð gott, mun betra en nefið gaf til kynna. Tungan var steinhissa á nágranna sínum, nefinu. Bragðið gefur fyrrnefnda ávexti, maltað bygg og hafrakex með smjöri. Já, ok hljómar einkennilega en það er bara akkúrat það sem það minnti á. Það getur verið erfitt að lýsa þessum flókna drykk sem viskí er og því þarf stundum að notast við framandi lýsingar.

Það er þarna vanillubúðingur (e. custard). Örlítil karamella og berjakeimur. Rifsber koma upp í hugann.

Opnast vel með vatnsdropa.

Niðurstaða: Hvað skal segja um þetta furðulega viskí? Anganin var ekkert sérstaklega girnileg og gerði mann ekki beint ofurspenntan og því bjóst maður svo sem ekki við miklu. En, þegar á tunguna er komið gerist einhver galdur því það bragðast svo miklu betur en maður býst við. Fremur miðlungs þó. Maður varð bara svo hissa á muninum milli lyktar og bragðs.


Cotswolds, 3ja ára. 46%. þroskað í blöndu af búrbon og -víntunnum en hlutföllin eru ekki gefin upp. Eflaust mjög lík Kingsbarns.

Þetta er fyrsta viskíið sem er nokkru sinni framleitt í hinu gríðarfallega Cotswolds héraði.

Anganin tekur strax langt fram úr Kingsbarns, lyktar geysilega aðlaðandi, mikil og góð ávaxtalykt. Strax poppa fram appelsínur, blóðappelsínur jafnvel. Þykk og mikil angan sem gefur góð fyrirheit. Hunang, apríkósur, vanilla.

Bragðið er stórfenglegt, sérstaklega miðað við aldur. Maður stóð sig að því að hugsa hvort maður hefði hellt úr réttri flösku, hvort þetta væri virkilega þriggja ára viskí. Áferðin er þykk, appelsínurnar koma sterkar inn og áferðin er þannig, og sætan, að þetta er nánast eins og appelsínumarmelaði. Síróp, hunang, crème brulee. Oft er keimur af grænum eplum eitt einkenni ungra viskía en því er ekki að heilsa hér og sker það sig því vel úr. Ótrúlega vel heppnað viskí og verður spennandi að smakka það þegar það verður eldra.

Niðurstaða: Eitt besta, unga viskí sem við höfum hnotið um. Vel gert Cotswolds!

Úrslit:

Cotswolds valtar yfir Kingsbarns í ójöfnum leik. Kingsbarns byrjaði leikinn herfilega og lenti snemma 3-0 undir, en klóraði í bakkann rétt fyrir hálfleik. Cotswolds innsiglaði sigurinn um miðjan síðari hálfleik. Sigurinn hefði hæglega getað orðið stærri en Kingsbarns áttu ágætan sprett sitthvoru megin við leikhlé.

4-1 fyrir Cotswolds.


Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.