Topp smakkanir frá 2018

Í byrjun nýs árs er ekki úr vegi að líta ögn um öxl og renna í huganum yfir ný viskí sem stóðu upp úr á því herrans og -frúarinnar ári 2018.

Við ætlum að tilnefna nokkur hér og tökum fram að hér teljum við ekki með eintunnunga, heldur viskí sem komu út á árinu í nokkuð viðráðanlegu magni og auk þess ekkert sem slátrar bankareikningnum endanlega, heldur bara góð, ný viskí sem flestir ættu að geta nálgast án of mikillar fyrirhafnar.

Kilkerran verksmiðjan á Campbeltown kom út með 8 ára tundurdufl á árinu, átappað af beint af ámu og var styrkleikinn 56.5% Sígilt Campbeltownviskí, með strandakeim, örlítill saltblær, góður slatti af móreyk og heljarinnar býsn af ávöxtum. Kilkerran hafa verið að gera ótrúlega hluti síðan verksmiðjan byrjaði að framleiða aftur árið 2004 eftir áratugalanga lokun.


Önnur ný verksmiðja er Kilchoman en sú er staðsett á Islay og var árið 2005 fyrsta nýja Islay verksmiðjan til að opna þar í hartnær 150 ár.

Þar hafa einnig stórbrotnir hlutir verið að gerast og miðað við hversu ung framleiðslan er, þá koma þaðan stórfengleg viskí, mikið reykt og eitthvað sem við mælum sérstaklega með fyrir reykháfana sem lesa Viskíhornið. Algerlega til eftirbreytni hvernig staðið er að málum hjá Kilchoman. Eitt af þeirra nýju viskíum á árinu 2018 var þroskað í Sauternes tunnum, en Sauternes er franskt, sætt hvítvín sem myndi teljast til eftirréttavína.

Kilchoman er ávallt töluvert mikið reykt og oft og tíðum eiga víntunnur og reykt viskí ekki nógu vel saman en þarna er hjónaband sem svínvirkar. Mikill reykur, ávöxtur og sætan úr víntunnunum ljær því sætan blæ í bakgrunni og er afar vel heppnað.


Glendronach 15. Fyrir nokkrum árum síðan var hið ástsæla Glendronach 15 tekið af markaði sökum skorts í vöruhúsum þeirrar mætu verksmiðju.

Árið 2018 skaut það upp kollinum á ný, aðdáendum til mikillar gleði. Einn ,,galli” var þó á gjöf Njarðar; þetta er ekki sama viskíið og áður var. Líkt er það vissulega, mjög líkt. Hver er munurinn?

Gamli Drónakurinn var úr Oloroso sérrítunnum. Oloroso er klassískt sérrí, millisætt og aðgengilegt. Munurinn á nýja Drónakinum og þeim gamla er sá að í þeim nýja er auk Oloroso, notast við Pedro Ximenez tunnur en það er afar dökkt og virkilega sætt sérrí sem gefur viskíinu ögn meiri dýpt, meiri sætu. Okkur hjá viskíhorninu gengur illa að greina á milli hvort sé betra, það gamla eða það nýja en við höllumst að því að nýi Drónakurinn standi hænuskrefi framar. Verulega vel heppnað.


Old Pulteney 15. Það hafa verið breytingar hjá Old Pulteney á árinu. 17 ára og 21s árs tekin af markaði og í stað komu 15 og 18 ára. Skoðum 18 ára pödduna ögn.

Pulteney verksmiðjan er ein sú nyrsta í Skotlandi og stendur við austurströndina, rétt við hafið sem skýrir þennan netta pækilskeim sem er af því. Mikill ávaxtakeimur en svo dettur inn þessi salti blær sem á það til að einkenna Pulteney viskíin. Í þessu tilviki er notast við bæði búrbon og -sérrítunnur, sennilega Oloroso. Skemmtileg sæta kemur fram úr sérrítunnunum, mikill ávöxtur, bananar, vanilla og saltpækill, á góðan hátt. Vel heppnað.


Eitt er það viskí sem stendur upp úr þó og það kemur úr nokkuð óvæntri átt. Eins og við nefndum hér að ofan þá eiga, að okkar mati, reykt viskí oft ekki mikla samleið með víntunnum.

Því kom það okkur nokkuð á óvart að við skyldum velja einmitt reykt viskí, úr rauðvínstunnu sem skemmtilegasta viskí sem við smökkuðum árið 2018.

Við kynnum til leiks 10 ára Port Charlotte MRC. Port Charlotte er framleitt af Bruichladdich verksmiðjunni á Islay og þarna er 2010 árgerðin, þroskuð í blöndu af búrbon og -rauðvínstunnum. Sem fyrr segir getur slíkt verið stormasamt hjónaband en þarna fellur allt í ljúfa löð.

Þarna kemur saman mikill reykur og sætan úr rúðvínstunnunum framleiðir einhvern galdur sem erfitt er að henda reiður á. Óhemju vel samansett viskí og verðugur sigurvegari Viskíhornsins sem besta nýja viskí ársins 2018.


Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.