Við Íslendingar eigum leið um flugstöð Leifs Eiríkssonar sem aldrei fyrr og við hjá Viskíhorninu höfum gaman af að skoða viskíúrvalið þar sem og í öðrum fríhöfnum. Það verður að segjast að úrvalið á Leifstöð er betra en nokkru sinni og við tókum saman fimm mismunandi viskí sem eru fáanleg í Leifsstöð þar sem gott verð og gæði fara saman.
Flóki – Ísland
Byrjum á að kitla þjóðerniskenndina örlítið og skoða fyrsta, íslenska viskíið, Flóka. Nýverið kom út fyrsti einmöltungurinn (e. single malt) en hingað til hafa eingöngu verið til ungmölt (e. young malt), en ungmalt er ,,viskí” sem hefur ekki náð þriggja ára þroska í eikartunnum, heldur einungis nokkurra mánaða, Í viskíbransanum þarf áfengið almennt að hafa náð þriggja ára þroskun hið minnsta, og það eingöngu í eikartunnum til að mega vera kallað viskí.
Hafandi það í huga að Flóki er barnungur þá er það framúrskarandi vel heppnað. Fram kemur mjög mikil vanilla og hefur Flóki drukkið í sig geysimikið magn af eikinni á þessum tiltölulega stutta tíma. Viskí er oftast þroskað í endurunnum tunnum (búrbon er undantekning) og þess má geta að Eimverk, framleiðandi Flóka, svo að segja bjó til sínar eigin endurunnu tunnur en einmöltungurinn er þroskaður í tunnum sem áður innihéldu ungmaltið frá Eimverki.
Þarna hefur gríðarlega vel tekist til enda afar vel vandað til verks í Garðabænum. Auk vanillunnar kemur fram negull, kanill, anís, greipaldin, örlítil karamella og áberandi keimur af íslensku byggi og fjallajurtum. Smellið hér fyrir viðtal við Eimverksbræður.
Nikka – Japan
Annað viskí sem má mæla með er frá hinni japönsku verksmiðju Nikka, sem er annar tveggja viskírisa þaðan, en hinn, og sá ögn betur þekkti er Suntory.
Nikka Coffey Grain (algengur misskilningur er að þetta komi kaffidrykknum eitthvað við, en glöggir sjá að ,,Coffey” er ekki ritað á sama hátt. Viskíið er eimað í síeimara sem er nefndur eftir þeim írska herramanni sem fann upp þá tækni, Aeneas Coffey).
Þetta viskí er ekki maltviskí, það er ekki unnið úr byggi heldur mestmegnis úr korni/maís og úr síeimara eins og áður er nefnt en ekki potteimara eins og einmöltungar eru eimaðir í. Síeimarinn framleiðir vanalega léttara viskí, sumir segja grófara réttilega, en í þessu tilviki stendur kornviskíið einmöltungum síst að baki. Það er enginn aldur tilgreindur en þetta er á bilinu 8-12 ára og er afskaplega létt, frískandi, mikill ávöxtur og minnir örlítið á búrbonviskí, sem er einmitt einnig framleitt úr korni. Það er ekki eins sætt og búrbon, það er mildara, heilmikill vanillukeimur og krydd sem minnir á kanil.
Nikka Coffey Grain er í fríhöfninni á 7990 krónur, sem er nokkuð gott verð en þess ber að geta að það fæst eingöngu í 70 sentilítra flöskum, en ekki 1000cl. eins og vaninn er í fríhöfnum.
Ardbeg Uigeadail – Skotland
Fyrir reykháfana er Ardbeg Uigeadail fáanlegt í flugstöð Leifs Eiríksonar á frekar sanngjörnu verði eða 8990 íslenskar krónur, en aftur er það eingöngu í 70 cl. flöskum.
Ardbeg Uigeadail (Uigeadail þýðir ,,drunga- og dularfullt” á galísku) er af náttúrulegum styrkleika eða 54.2% og að hluta til þroskað í sérrítunnum sem gefur aukna dýpt og sætu sem dansar vel í takt við reykinn sem einkennir Ardbeg. Stórbrotið viskí sem allir unnendur reyktra viskía ættu að kynna sér.
Aultmore – Skotland
Fyrir þá sem eru hallir undir léttari og ferskari viskí á borð við Glenfiddich, þá er Aultmore vissulega eitthvað sem er þess virði að kynna sér. Það hefur ekki verið mikið um einmöltunga frá þeim á markaði undanfarin ár enda fer megnið af framleiðslunni í Dewar’s blöndunginn en hann er eitt mest selda blandaða viskí heimsins í dag sem og undanfarin ár. Nýverið kom út 12 ára einmöltungur og sá hefur aldeilis slegið í gegn, enda framúrskarandi viskí. Létt, ferskt, mikil vanilla, kryddað, með undursamlegan keim af rjómakaffi og karamellu.
Fæst í fríhöfnum á afar hófsömu verði eða 7699 krónur fyrir lítrann.
Glenfarclas 18 – Skotland
Glenfarclas er viskí sem ætti að falla vel í kramið hjá þeim sem eru fyrir þyngri viskí úr sérrítunnum.
Glenfarclas er frá Speyhéraði og er að miklu leyti þroskað í gömlum sérrítunnum sem gefa aukna dýpt. Mikill keimur af rúsínum, karamellu, vel þroskuðum plómum og hnetum auk mikillar vanillu úr eikinni eftir öll þessi 18 ár.
Pottþétt fyrir þá sem eru fyrir viskí á borð við Macallan og fæst í fríhöfninni á einungis 9990 krónur lítrinn sem er gjafverð fyrir viskí af þessu kalíberi.
Grein upphaflega birt á Túristi.is – gagnleg síða fyrir ferðalanga