Tískuviskí

Viskí gengur í gegnum tískustrauma rétt eins og annað. Skoðum nokkur viskí sem eru móðins í dag, en kannski ekkert endilega þau bestu auk þess sem gæði og verð haldast kannski ekki beint í hendur.

Yamazaki

Suntory er risinn í japanskri viskíframleiðslu en þaðan koma ásamt Yamazaki, Hakushu, Chita og blanda þessara þriggja viskía, Hibiki.

Í einni best þekktu viskíbók samtímans, The Whisky Bible eftir Jim Murray, sem kom út árið 2015 (hún kemur út árlega) valdi höfundurinn Yamazaki Sherry Cask sem besta viskíið það árið en þess má geta að sú flaska var í afar takmörkuðu upplagi og var þá orðin nánast algerlega ófáanleg en allir vildu eignast hana. Hún skaut upp kollinum á hinum og þessum uppboðssíðum og aðdáendur Jim Murray voru viljugir til að setja dágóða dæld í bankareikninginn til að komast yfir bokku. Verðið rauk því upp og hefur flaska farið á þúsundir punda. Viskíhornið minnist þess fyrir mörgum árum þegar hún var í almennri smásölu á undir eitt hundrað sterlingspundum.

Síðan Yamazaki Sherry Cask hlaut þennan titil og seldist upp hafa Yamazaki aðdáendur snúið sér að öðrum útgáfum, sér í lagi þeirri 18 ára, sem á sér nokkuð sameiginlegt með Sherry Cask, enda að miklu leyti úr slíkum ámum og aldurinn heillar einnig.

Yamazaki 18 ára er vissulega framúrskarandi viskí með gríðarmikla fyllingu og óhemju fjölþætt. Þessi geysimikla eftirspurn hefur þó ýtt verðinu upp í hæstu hæðir og spurning hvort peningunum sé ekki betur varið annarsstaðar.


Mynd: Eire Born Spirits

Proper 12

Margir kannast við Conor McGregor enda einn frægasti íþróttamaður samtímans og hefur kauði gert garðinn frægan í bardagalistum; MMA og hnefaleikum. Honum leiðist ekki athyglin og gengur ansi langt til að baða sig í ljóma sviðsljóssins. Við erum nokkuð viss um að það þurfi ekkert að vera að tíunda þau leikrit sem hann hefur sett upp til að vekja á sér athygli auk þess sem hann er vel þekktur á Íslandi sem æfingafélagi og vinur Gunnars okkar Nelson.

Nýjasta útspil Conors er viskí. Írskt viskí sem nefnis Proper 12. Tólfan í titlinum hefur ekkert með aldur vökvans að gera heldur er það skírskotun í póstfang hverfisins sem Conor ólst upp í á Írlandi. Villandi? Kannski svolítið. Viskíið er afar ungt, mikill spírakeimur, örlítil vanilla, mikill kornkeimur með eitt stysta eftirbragð sem völ er á.

Afar óeftirminnilegt og óspennandi viskí sem er alls, alls ekki peninganna virði. Það eina góða við Proper 12 er að töluverður hluti af ágóða fer í góðgerðarmál.

Þrátt fyrir að viskíið bragðist eins og það gerir á Conor eflaust eftir að selja það í bílförmum enda er þessi umtalaði og umdeildi íþróttamaður geysivinsæll víða um heim.


Octomore

Nú stökkva kannski einhverjir lesendur upp á nef sér af nokkrum krafti enda á Octomore sér dyggan aðdáendahóp víða, sérstaklega meðal reykháfa enda er Octomore mest reykta viskí veraldar. Það er framleitt á Islay af Bruichladdich verksmiðjunni og er, eftir útgáfum, allt að sexfalt meira reykt heldur en Ardbeg t.a.m.

Octomore er vissulega mjög gott viskí sem höfðar vel til þeirra sem eru fyrir þau reykt (e. peated), en fróðir menn segja að það séu þarna mettunarmörk, sem liggja rétt ofan við reykstigið sem notast er við hjá Ardbeg. Reykurinn er mældur í Phenols per Million, eða ppm. Ardbeg er um 55 ppm en Octomore hefur skellt sér upp í um 310 ppm. Þessir fyrrnefndu, fróðu menn segja að mettunarmörkin séu um 70ppm, eftir það greini bragðlaukarnir engan mun og jú, það er mikið til í því. Octomore smakkast ekkert sex sinnum reyktara en t.d. Ardbeg þó vissulega hafi það óhemju sterkt reykbragð, og smá ávöxt í bland, en reykurinn er það sem Octomore snýst um. Sumir myndu kannski kalla þetta ákveðna sýndarmennsku, en aðrir gott markaðstrix eða jafnvel hvort tveggja. Lestu smakkpunkta hér.

Viskíið er alltaf ungt, um fimm til átta ára eftir tegundum og alltaf af náttúrulegum styrkleika, eða um 60% alkóhól sem spilar smá rullu í verðinu, sem er dálítið groddalegt. Gríðarleg reykbomba en spurningin er hvort það sé þess virði að punga út 150 til 500 pundum fyrir flöskuna?


Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.