Glenfarclas er sístætt viskíból frá Speyhéraði og hefur nokkra sérstöðu að því leyti að það er enn í eigu sama fyrirtækis og kom því á laggirnar árið 1836. Mikill meirihluti viskíverksmiðja í Skotlandi hefur skipt um eigendur gegnum tíðina og það oftar en einu sinni, og margar verið seldar til aðila utan lands Skota. Eigendur Glenfarclas hafa ávallt staðist orrahríð tilboða hvaðanæva að varðandi kaup á verksmiðjunni og er það nokkuð virðingarvert, ekki satt?
Glenfarclas hefur gegnum árin verið með stöðuga og áreiðanlega framleiðslu þar sem aðdáendur Spey-viskía í sætari kantinum geta gengið að sínum dropa vísum.
Framleiðslugetan er nokkuð miðlungs eða um þrjár og hálf milljónir lítra árlega en þó eru óhemju margar mismunandi útgáfur í boði. Kjarninn er 10 ára en auk þess fást 12 ára, 15, 17, 18, 21s og 25 og allt upp í 40 ára auk annarra eintunnunga og árgangsviskía. Glenfarclas auk þess framleiðir mismunandi viskí fyrir mismunandi markaði, sérviskí fyrir fríhafnir og slíkt.
Aðaleinkenni þessa viskís er ögn sætur sérríkeimur enda er það að hluta til þroskað í gömlum sérríámum, hnetur, ávaxtakaka (e. fruitcake), vel þroskaðir ávextir, örlítil sítruskeimur.
Angan: Rúsínur, karamella, nýopnaður konfektkassi frá Nóa&Síríus, súkkulaði, krydd, hnetur. Nokkuð minni sérríáhrif og léttara en eldri útgáfur.
Bragð: Stórt, þekjandi og meira um sig en maður hefði kannski búist við af 10 ára gömlu viskíi. Karamella, hunang, rúsínur og svolítið jólalegt bragð af eplum og kanil og örlítill sítrus.
Eftirbragð: Millilangt, pipar og eik loðir við tunguna. Mjög þægilegt eftirbragð.
Fyrir hverja er Glenfarclas? Steinliggur fyrir aðdáendur sætari viskía úr sérrítunnum svo sem Macallan, Aberlour eða Glendronach. Einnig hentar það afar vel fyrir þá sem vilja fá gott fyrir peninginn því Glenfarclas er vanalega á mjög hagstæðu verði.
Þungt, umfangsmikið, stóreflisviskí sem við myndum sérstaklega mæla með sem eftirrétt eftir góðan kvöldverð.