The Whisky Show 2018

Úrvalið á þessum viðburði er alltaf alveg gríðarlegt og þarf eiginlega að fara á alla þrjá dagana til að upplifa og prófa allt það sem er í boði, en enginn mennskur maður getur sennilega nokkurn tímann prófað allt það sem er á boðstólum. Því miður var okkur einungis heimangengt einn daginn af þremur en hér eru nokkrir hápunktar:

Hin endurnýjaða Annandale verksmiðja kynnti sínar afurðir og prófuðum við tvö viskí frá þessari nýopnuðu verksmiðju, annað óreykt en hitt reykt og okkur þótti mikið til koma. Verulega efnilegt, ungt viskí. Man O’Words heitir það óreykta en það reykta nefnist Man O’Swords. Reykta útgáfan gefur vissulega töluverðan reyk, fremur vanþroska en mjög efnilegt og verður gaman að sjá og prufa hvernig það verður verður eftir að hafa þroskast nokkur ár í tunnunni.

Man O’ Words er létt, ferskt með mikinn keim af grænum eplum, vanillu, blómlegt og grösugt með sætu sem minnir á trjásafa. Vissulega mjög ungt viskí enda hefur það rétt náð aldri til að vera nefnt viskí en efnilegt er það. Verður spennandi að smakka eftir nokkur ár.

Bladnoch er önnur verksmiðja sem hefur gengið gegnum endurnýjun lífdaga undanfarið og nú er fáanlegt 10 ára auk annarra yngri úr ýmiskonar tunnum. Bladnoch er sígilt láglandaviskí, létt, blómlegt og grösugt. Algerlega óreykt og aðgengilegt.

Hið indverska viskí frá Goa, Paul John, var vissulega á sínum stað og talsmaður þeirra og velunnari Viskíhornsins, Shilton Almeida stóð sína plikt og vel það. Þar smökkuðum við allar þeirra vanalegu vörur auk nýrrar útgáfu sem nefnist Kanya en sú er 50% alkóhól, úr amerískri eik, ,,first fill” og einkennist af vanillu, framandi ávöxtum í átt að papaja, hnetum, hunangssætu og síðan laumast töluverður kryddkeimur aftan að manni eftir drykklanga stund.

Paul John er viskí sem unnendur lífsins vatns ættu að kynna sér. Virkilega vel að því staðið. Meira um Paul John hér.

Hin gamalgróna vínverslun í London, Berry Brothers and Rudd var með stand með nokkrum nýjum viskíum og þar stóðu tvö upp úr, 10 ára Glenallachie 2007 og 20 ára Ben Nevis 1997. Glenallachie ungt og ferskt með mikinn ávöxt en Ben Nevis þyngra, flóknara en þó alveg silkimjúkt. Ben Nevis var með sinn eigin stand einnig. Vanmetið viskí að okkar mati, fantagott á mjög sanngjörnum prís og nefnum við þar sérstaklega Ben Nevis MacDonald’s. Léttreykt með mikinn karamellu- og appelsínukeim. Ben Nevis 10 ára veldur heldur engum vonbrigðum.

Að lokum má nefna nýjasta útspilið frá Kilchoman, úr Sauternes víntunnum. Kilchoman er eins og margir vita, nýleg verksmiðja á Islay og framleiðir tiltölulega mikið reykt viskí. Þessi tiltekna útgáfa hefur dvalið um hríð í Sauternes vínámum en það er fremur sætt eftirréttavín frá Frakklandi. Það gefur Kilchoman aukna dýpt, meiri vídd og felur reykinn örlítið. Frábærlega vel heppnað.

Þar með lauk The Whisky Show 2018 og telst okkur til að við höfum smakkað rúmlega 50 mismunandi viskí þennan eftirmiðdag. Þá var haldið beint heim og hellt upp á könnuna og niðurtalning daga hófst að Whisky Show 2019.


Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.