Frá Spáni til Speyhéraðs

Viskíhorninu var nýlega boðið á viskí kynningu á Hispania veitingastaðnum í miðborg Lundúna, þar sem kynnt voru öll þau viskí sem koma frá Tamdhu verksmiðjunni auk þess sem fjallað var um sérríframleiðandann sem skaffar Tamdhu sínar tunnur.

Hér heldur Sandy McIntyre tölu, en hann er Distillery Manager hjá Tamdhu

Yfirskrift viðburðarins var„From Spain to Speyside” eða „Frá Spáni til Speyhéraðs”. Tamdhu er eingöngu þroskað í tunnum sem áður innihéldu Oloroso sérrí frá Jerez á Spáni. Því má segja að saga hvers dropa hefjist þar. Eikin sem Tamdhu er þroskað í kemur að mestu leyti frá Jerez en einnig er notast við eik frá Bandaríkjunum. Sama hvaðan eikin kemur, þá eru tunnurnar fyrir Tamdhu alltaf fyrst fylltar af Oloroso sérríi áður en þær eru sendar yfir til Skotlands. Vissulega kostnaðarsamt og tímafrekt en forráðamenn Tamdhu eru gallharðir á því að svona verði viskíið þeirra best og hnika hvergi frá þessari reglu.

Eitt sem kom okkur á óvart er að úr einu eikartré fæst eingöngu efniviður í eina sérrítunnu, tvær hið mesta. Restin af trénu fer vissulega ekki til spillis heldur er afgangs eik seld í hina ýmsu framleiðslu, húsgögn og slíkt. Þar sem hver eik er 80-100 ára gömul hljómar vissulega eins og hver skógurinn falli á fætur öðrum því Tamdhu þarf mikið magn tunna í framleiðsluna en þess er gætt að þetta sé allt sem vistvænast, nýir eikarsprotar gróðursettir jafnharðan auk þess sem skógarnir sjá um sína endurnýjun að mestu leyti sjálfir.

Á þessum viðburði var kynning á Tamdhu 10 ára, hinu nýja Tamdhu 12 ára auk hins unga Dalbeallie sem er átappað af náttúrulegum styrkleika eða 62.1%. Dalbeallie er nefnt eftir sögufrægri lestarstöð í grennd við verksmiðjuna. Þar voru að auki í boði Oloroso sérríin sem eru þroskuð í tunnunum sem notaðar eru fyrir Tamdhu.

Iain Weir, Brand Director hjá Tamdhu

Tamdhu var stofnað árið 1898 og ítrustu gætni gætt til að þar væri framleitt viskí eins og best verður á kosið. Ævi Tamdhu hefur verið nokkuð stormasöm og verksmiðjunni verið lokað nokkrum sinnum gegnum árin. Það orsakast kannski að einhverju leyti af því að sérrítunnur eru stærri en búrbontunnur og töluvert dýrari, verðmunur getur orðið allt að tífaldur og því virðingarvert hversu fast forráðamenn Tamdhu halda í þessa ströngu tunnu-reglu. Það fer líka gríðarleg vinna í hverja tunnu, frá því að eikin er höggvin líða allt að sex ár þar til hún kemst loks í hendur Tamdhu en sá tími fer í vinnslu og þurrkun eikarinnar. Annað sem vekur athygli er að tunnurnar eru fluttar í heilu lagi til Tamdhu en algengt er að þær séu fluttar sundurteknar og síðan settar saman í Skotlandi.

Því er ljóst að mikil natni fer í hvern dropa af Tamdhu enda kemur þaðan framúrskarandi viskí sem allir áhugamenn um lífsins vatn ættu að geta notið til hins ýtrasta.
Lestu meira um tunnur hér.


Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.