Tamdhu

Tamdhu verksmiðjan var sett á laggirnar árið 1896 en hefur átt nokkuð stormasama ævi. Henni var lokað árið 1911, enduropnuð 1913, lokað aftur 1928 allt til ársins 1948 er hún opnaði á ný.

Árið 2009 var henni lokað aftur og árið 2011 keypti Ian Macleod Tamdhu og hófst framleiðsla á ný árið 2012. Lagerinn var þó á sínum stað og því nokkuð til af eldri viskíium þar þegar Ian Macleod keypti og árið 2013 kom út 10 ára útgáfa sem var afar vel tekið.

Tamdhu er ávallt og eingöngu þroskað í sérrítunnum, bæði frá Spáni og Bandaríkjunum. Þær eru ristaðar að innan og síðan fylltar af Oloroso sérríi áður en þær eru svo fluttar yfir til Skotlands þar sem Tamdhu viskívísi er dælt í þær.

Bandaríska eikin inniheldur töluvert vanillín sem gefur mildan og ávaxtaríkan vanillukeim en sú spánska gefur af sér mikið tannín, gerir viskíið dekkra og þurrara. Litarmunurinn milli þessara tvegjja tunnutegunda er sláandi. Þessum tveimur tegundum tunna er síðan blandað saman og útkoman verður fremur milt viskí, þó með töluverð sérríáhrif en afar gott jafnvægi.

Skoðum ögn 10 ára Tamdhu:

Angan: Ávöxtur skýst á móti manni. Perur, sítrus en einnig mikil vanilla og ekki laust við að það minni á smjördeigshorn. Töluverð eik og sætur kryddkeimur af sérríinu.

Bragð: Appelsínubörkur, rjómasúkkulaði, marsipan, rúsínur.

Eftirbragð: Fremur langt og heitt, sérríkeimurinn lifir nokkuð sem og þurrkaðir ávextir, rúsínur, döðlur og jafnvel fíkjur.

Niðurstaða: Virkilega vel heppnað viskí í fullkomnu jafnvægi þrátt fyrir að vera eingöngu úr gömlum sérrítunnum. Auk þess er flaskan sjálf einstök en ekkert viskí kemur í þessháttar flöskum. Afar vel heppnuð hönnun og eftirsjá í flöskunum þegar maður hendir þeim í endurvinnsluna. Til að komast hjá söknuðinum þá henta þær vel til endurnotkunar, sem vatnskarafla eða stofustáss sem kertastjaki.

Fyrir hverja? Tamdhu er pottþétt fyrir aðdáendur viskía eins og Macallan og/eða Glendronach. Það er einnig tilvalið í einfalt og haustlegt hanastél með dálitlum kanil.

Þess ber að geta að 10 ára verður tekið af markaði í lok árs og í staðinn kemur 12 ára útgáfa sem Viskíhornið hefur verið svo lánsamt að smakka. 10 ára er framúrskarandi en þeir Tamdhu félagar, undir stjórn Sandy Mcintyre hafa skapað eitthvað sérstakt í því 12 ára. Það hefur allt sem 10 ára hefur, en örlítið meira þokkafullt og elegant.

Hafi áhugamenn áhuga á að smakka 10 ára þyrfti því að hafa hraðar hendur.


Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.