5 vanmetnustu viskíin sem þú verður að smakka

Margir gamlir og reyndir viskíunnendur eiga það til að halda sig við sín viskí og og eru kannski svolítið smeykir við að prófa eitthvað nýtt og framandi. Við ákváðum því að líta aðeins á nokkur lítt þekkt og vanmetin viskí, því það er jú, alltaf gaman að prófa eitthvað nýtt og láta koma sér ögn á óvart.

Glencadam

Byrjum á Glencadam verksmiðjunni sem er í austur-hálöndum, nánar tiltekið Brechin rétt norðan við Dundee.

Glencadam er í eigu Angus Dundee og fer hátt hlutfall framleiðslu hennar í blönduð viskí, Ballantine’s og Cream Of The Barley verandi þar fremst í flokki, svo að erfitt getur reynst að nálgast einmöltunga þaðan. Þó koma þaðan nokkuð margar útgáfur, en í takmörkuðu upplagi. Kjarninn er 10 ára en auk þess koma þaðan 13 ára, 18, 19 og 21s árs, hver annarri betri.

Helstu einkenni eru mikil vanilla enda er Glencadam eingöngu úr gömlum búrbontunnum.

Fremur létt og ferskt, eikarkrydd og töluverður ávöxtur, blómlegt. Svolítið eins og lyktin sem mætir manni er maður gengur inn í blómaverslun.

Hverjir ættu að smakka Glencadam? Aðdáendur Spey-viskía á borð við Glenfiddich og Glenlivet og hálandaviskía í ætt við Glenmorangie.


Springbank

Springbank er vanmetinn framleiðandi og þar sem hún er frekar smá og með litla framleiðslugetu getur verið strembið að nálgast það og þar sem viskí þaðan eru mjög eftirsóknarverð eru margir um hituna.

Springbank verksmiðjan er í Campbeltown, fyrrum höfuðborg viskíframleiðslunnar en þar voru um 34 verksmiðjur þegar mest var. Nú eru einungis þrjár eftir, og tvær þeirra í eigu Springbank, enda sá framleiðandi sem ávallt hefur viðhaldið sínum háa gæðastaðli og því staðið af sér erfiðleika undanfarinna áratuga.

Viskíin frá Springbank haka í ansi mörg hólf. Það er framleitt og þroskað nálægt strönd og drekkur í sig sjávarblæ, er örlítið reykt, notast er að hluta við sérrítunnur en einnig tekst þeim að ná fram miklum ávaxtakeim svo að þarna er á ferðinni afar margslungið viskí sem aðdáendur meira krefjandi viskía ættu að smakka, hnjóti þeir um flösku. Þess má geta að það getur verið töluverður mismunur milli lagana sem er eitt það sem gerir Springbank svo spennandi viskí. Framleiðslan er ekki á sama stigi og hjá þessum stóru þar sem allt snýst um að gera hverja lögun nákvæmlega eins. Springbank átappar því sem er framleitt og eiga ekki sama magn tunna á lager og margir keppinautar og því getur verið örlítill munur milli árganga/lagana. Viskíhornið á t.a.m. nokkrar mismunandi 10 ára flöskur sem eru ögn ólíkar hvað lit og bragð varðar. Það er í okkar huga eitt af því sem gerir Springbank svo spennandi viskí.

Kjarninn er 10 og 15 ára auk annarra enn takmarkaðri útgáfa.

Hverjir ættu að smakka Springbank? Aðdáendur léttreyktra strandviskía eins og Talisker, Ledaig (sem er nefnt hér að neðan), Benromach, Highland Park svo eitthvað sé nefnt.


Ledaig 10

Fyrir reykháfa sem eru fyrir Talisker, Lagavulin og slíkar sprengjur er eitt viskí frá Mull eyjunni. Það er Ledaig (borið fram Ledjigg). Verksmiðjan sem stendur Ledaig að baki heitir Tobermory. Viskí undir því nafni er sama og ófáanlegt eins og er þar sem það fer mest í blöndur. Eini einmöltungurinn sem er fáanlegur þaðan um þessar stundir er Ledaig.

Léttreykt, strandakeimur, togarakaðlar en samt með töluverðum ávaxtakeim, smá pipar og vanillu.

Fyrir hvern er Ledaig? Ledaig er svolítið glúrið viskí sem gæti höfðað til margra. Til þeirra sem eru vanalega í léttari viskíum en vilja fara aðeins yfir í reykjarbragðið jafnt og fyrir þá sem eru algerir reykháfar sem vilja kannski tóna sig aðeins niður í reyknum.

Aðdáendur Talisker samsvara sér í Ledaig en sem fyrr sagði þá er þetta gott skref úr léttari viskíum yfir í reyktari jafnt og fyrir þá sem vilja aðeins trappa sig niður úr reykbombunum.


An Cnoc

An Cnoc er afar vanmetið hálandaviskí. Fremur smá verksmiðja og margt þaðan er sem fyrr, sent í blöndur.

Kjarninn er 12 ára.

Skemmtilega glúrið, kryddað, mikill ávöxtur og afar skemmtilegt að prófa fyrir aðdáendur viskía í léttari kantinum sem vilja krafla sig aðeins áfram og prófa eitthvað aðeins öðruvísi en samt ekki keyra um þverbak.


Tomatin

Tomatin er annað hálandaviskí sem okkur finnst að ætti að fá meiri athygli, en sjarminn við það er jú einmitt sá að það er erfitt að nálgast það nema í sérverslunum. Tiltölulega lítill framleiðandi sem notast að töluverðu leyti við sérrítunnur í bland við búrbontunnur.

Kjarninn er 12 ára með mikinn toffíkeim, fremur sætt, möltugt, ferskur eplakeimur. Þýsk eplakaka með rjóma!

Fyrir hverja er Tomatin? Pottþétt fyrir aðdáendur viskía úr sérrítunnum sem vilja aðeins slaka á í sætleikanum og fara í eitthvað með ögn meira jafnvægi. Tomatin býður upp á svo margt, margslungið viskí sem flestir viskíunnendur ættu að geta unað sér vel við.


Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.