Tilkynning frá Dave Stewart

Maltmeistarinn sögufrægi hjá Balvenie, Dave Stewart er vissulega kominn til ára sinna, kominn á áttræðisaldurinn en er þrátt fyrir það í fantaformi og eys út ýmiskonar Balveniebokkum eins og hann fái borgað fyrir það! Sem hann fær sennilega, og það vel.

Flestir þurfa þó að lúta í gras fyrir elli kerlingu að lokum og er Dave þar engin undantekning, þó vissulega hafi hann dreypt á lífsins vatni reglulega síðan hann var 17 ára og hóf störf fyrir Balvenie.

Dave Stewart er heilmikil goðsögn í viskíbransanum og afar virtur af kollegum sem og fleirum. Hann t.a.m. var frumkvöðull í ,,cask finishing” eða tvíþroskun viskís, þ.e. viskíið eyðir mestum tíma í ákveðinni tunnutegund, oftast amerískri eik (bourbon) en er svo síðustu mánuði sett yfir í annarskonar tunnu. Gott dæmi er Balvenie DoubleWood sem er 12 ár í búrbontunnu, og síðan rétt innan við ár í sérrítunnu. Það gefur viskíinu aukna dýpt, annan keim en það er mikil list að blanda þessum tveimur tunnum saman svo vel sé svo ekki sé talað um að ná stöðugleika milli lagana.

Nú nýlega var tilkynnt að hann hafi tekið sér lærling, sem á síðarmeir að taka við störfum hans hjá Balvenie.

Það sem er nokkuð merkilegt við lærlinginn er fyrst og fremst það að hann er einungis 25 ára annarsvegar, og hins vegar það að það er ekki ,,hann” heldur hún en því miður hefur viskíframleiðsla gegnum aldirnar verið nokkuð einokuð af karlpeningnum, en góðu heilli er það að breytast og kvenþjóðin farin að ryðja sér til rúms þar, sem er vel.

Sú heitir Kelsy McKechnie. Hún er lærður líffræðingur sem hefur starfað hjá William Grant’s um nokkra hríð, undir handleiðslu Brian Kinsman hjá Glenfiddich og nú með Dave karlinum Stewart.

Kelsy hefur komið að nokkrum nýlegum útgáfum frá Balvenie og þar mætti nefna Balvenie Peat Week 14, Balvenie 25 og Balvenie Fifty. Sé mark takandi á hvernig þar tókst til er nokkuð ljóst að framtíðin er björt hjá Balvenie með Kelsy í brúnni.

Skál fyrir Kelsy.


Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.