AnCnoc viskíið kemur frá verksmiðju í hálöndunum, sem nefnist KnockDhu. Ástæðan fyrir því að KnockDhu er einn sárafárra einmöltunga sem ekki eru nefndir eftir verksmiðjunni, er sú að ekki svo langt frá er viskíverksmiðja sem heitir Knockando og þar sem nöfnin eru tiltölulega lík, brá KnocDhu á það ráð að nefna ekki sína framleiðslu eftir heiti verksmiðjunnar, svona til að koma í veg fyrir misskilning.
KnockDhu verksmiðjan er í Huntly í Aberdeenskíri í hálöndunum og er oft talið sem Speyside viskí. Knockdhu er alveg við jaðar Speyhéraðs og eru forráðamenn þar gallharðir á að AnCnoc sé hálandaviskí en alls ekki Speyside.
AnCnoc þýðir ,,The Hill” eða hæðin og er nefnt eftir hæðinni sem verksmiðjan stendur við og fær vatn úr við framleiðsluna.
Kjarnaframleiðslan hjá KnockDhu er 12 ára og 18 ára. Einnig koma þaðan, í takmörkuðu upplagi, 24 ára og árgangsviskí en það sem er í gangi er þetta er skrifað er árgerð 2002, átappað 2017.
Viskíhornið hefur verið svo lánsamt að vera boðið í heimsókn í KnockDhu fyrir nokkru og er þetta frábært viskíból heima að sækja. Maðurinn í brúnni, Gordon Bruce leiddi okkur í allan sannleikann um framleiðsluferlið og söguna og er leitun á manni með jafnmikla ástríðu fyrir eigin viskíi, sem smitast auðveldlega og eftir þá heimsókn hefur AnCnoc afar sérstakan stað í viskíhjarta Viskíhornsins.
AnCnoc er fremur létt, mikill ávöxtur og það er notast við örlítinn mó í framleiðslunni en hann kemur ekki mikið í gegn. Með góðum vilja er hægt að greina móreyk í yngri AnCnoc en það mun aldrei teljast vera reykt viskí. Þó eru einstaka sérútgáfur/eintunnungar sem innihalda meiri móreyk en standardarnir.
AnCnoc 12. 40%, bórbontunna.
Angan: Eik, vanilla, ögn sætt og töluverður ávaxtakeimur, blómlegt, jafnvel engifer, malt
Bragð: Nokkuð bragðmeira, fyllra en anganin gaf til kynna. Nokkuð sætt, minnir örlítið á púrtvín. Agnarsmár keimur af móreyk, kakó. Skemmtilega létt en samt margslungið. Glúrið viskí.
Eftirbragð: Ekki mjög langt, en afar þægilegt. Vanilla, ávöxtur í átt við perur, hunangssæta, malt og skemmtilegur kryddkeimur. Með vatni opnast AnCnoc ögn og mýkist. Það er í raun óþarfi að útvatna það, en ef það er gert þá þarf að fara varlega og ekki drekkja viskíinu, það þolir ekki mikið vatn.
Niðurstaða: Ofsalega skemmtilegt viskí sem leynir verulega á sér. Það er létt, en samt bragðmikið og glúrið. Margslungið. Mælum eindregið með að smakka AnCnoc.
Fyrir hverja?
AnCnoc steinliggur fyrir aðdáendur viskía í léttari kantinum. Nefnum sem dæmi, Glenfiddich, Deanston, Glenmorangie eða Glenlivet.