Glengoyne verksmiðjan er staðsett norður af Glasgow og er frábær heim að sækja. Fallegt landslag og vel tekið á móti gestum.
Þar taka menn sinn tíma við eiminguna, sem er nokkuð hæg og gefur af sér mjög mildan, léttan og ávaxtaríkan spíra sem er síðan þroskaður í sérrítunnum. Auk þess er maltið sem þar er notað 100% óreykt.
Angan: Keimur af grænum eplum, nokkur ávöxtur, hnetur og jafnvel hvítt súkkulaði.
Bragð: Létt og milt, afar þægilegt viðureignar. Svolítið „creamy“. Töluverður hnetukeimur, ferskir ávextir og karamella.
Eftirbragð: Ekki það lengsta, en lifir þó töluvert. Keimur af byggi, vanillu og ávöxtum.
Niðurstaða: Vel heppnað, ungt viskí frá Glengoyne. Rúsínukeimurinn sem á það til að koma vel fram í eldri Glengoyneviskíum er ekki mikið til staðar hér en hann má þó greina ef viljinn er fyrir hendi. Glengoyne 10 er tilvalið fyrir þá sem eru fyrir léttari og ferskari viskí eins og t.a.m. Glenfiddich, Glenlivet eða jafnvel Glenmorangie.
Smá ábending í restina. Einn allra besti standardinn frá Glengoyne, sá 15 ára verður tekinn úr sölu bráðlega og er það miður. Um að gera að grípa flösku!