Teeling á sér langa sögu en fyrstu Teelingdroparnir runnu úr eimurunum árið 1782 er Walter Teeling hóf framleiðslu viskís í Dyflinni. Í dag eru það afkomendur hans, bræðurnir Jack og Stephen Teeling sem sitja í brúnni síðan þeir endurreistu fyrirtækið árið 2012 en þá var það fyrsta, nýja viskíverksmiðjan sem sett var á laggirnar í Dyflinni í 125 ár.
John Teeling, faðir bræðranna Jack og Stephen keypti árið 1987 Cooley verksmiðjuna, sem þá framleiddi alkóhól úr kartöflum. Árið 1989 hófst þar viskíframleiðsla en þaðan hafa síðan komið viskí eins og Connemara, Kilbeggan, Tyrconnell og Greenore.
Árið 2011 keypti Beam Suntory síðan Cooley verksmiðjuna en með í viðskiptunum fylgdu 16.000 tunnur af viskíi framleiddu af Cooley’s sem Jack og fjölskylda héldu eftir. Þær tunnur hafa verið uppistaðan í útgáfum Teeling hingað til en nýverið var byggð stór verksmiðja í The Liberties í hjarta Dyflinnar, steinsnar frá staðnum þar sem Walter Teeling byggði sína verksmiðju. Þar fer nú fram umfangsmikil framleiðsla á Teeling viskíi, bæði blönduðu sem og einmöltungum.
Viskíframleiðsla á Írlandi nær langt aftur í aldir og var sú umfangsmesta á sínum tíma. Þar voru viskí ávallt eimuð í potteimurum, sem eru ekki eins afkastamiklir og síeimarar sem voru fundnir upp síðar. Það var einmitt síeimarinn (continuous still eða Coffey still) sem nánast gekk af írsku viskíi dauðu. Þegar Aeneas Coffey fann upp síeimarann þá reyndi hann að koma honum að hjá írskum framleiðendum en þeir fúlsuðu við slíku, fannst það ekki vera rétta leiðin til að búa til ekta viskí.
Síeimarinn er margfalt afkastameiri en potteimari en gefur af sér léttara áfengi. Hr. Coffey fór með uppfinningu sína til lands Skota og þeir tóku honum opnum örmum. Framleiðsla skosks viskís margfaldaðist og þessi léttari viskí virtust höfða vel til almúgans, auk þess sem þau voru ódýrari af augljósum ástæðum, og án þess að við förum að tala um einhverjar úreltar staðalímyndir, þá féll það í góðan jarðveg hjá skoskum. Stuttu síðar fékk maður að nafni Andrew Usher þá hugmynd að blanda saman einmöltungum úr potteimurum og kornviskíi úr síeimurum og þar með urðu blönduð viskí til sem fóru sigurför um heiminn. Fólk gleymdi írskum viskíum, sneri sér að skoskum og margar verksmiðjur í Írlandi lögðu upp laupana.
Annað áfall fyrir viskíframleiðslu í Dyflinni reið yfir árið 1875, 18. júní nánar tiltekið, í The Liberties sem er akkúrat þar sem Teeling Distillery er núna. Eldur braust út í viskíverksmiðju sem þá hét Malone’s Malt House og þar voru geymdar um 5000 viskítunnur. Tunnurnar sprungu og viskí flæddi um allar götur. Sagan segir að 13 manns hafi látist í eldsvoðanum, en enginn beint vegna hans, reykeitrunar eða slíks, heldur af völdum áfengiseitrunar!
Auk þess er ekki gáfulegt að sprauta vatni á brennandi etanól og þar sem mikið var um býli í grennd var brugðið á það ráð að dreifa hrossataði á eldinn til að stöðva útbreiðslu hans. Það aftraði fólki víst ekki frá því að lepja upp viskí af strætum Dyflinnar! Eða svo segir sagan hið minnsta.
En aftur að Teeling. Viskíhornið hefur verið svo lánsamt að eiga í góðu sambandi við eigendur Teeling, og dreypt á allri framleiðslu þeirra. Þar er framleiddur einmöltungur, kornviskí og blandað viskí. Eins og tíðkast á Írlandi er viskíið alltaf þríeimað (skoskt er tvíeimað) sem gefur léttari og kannski aðgengilegri viskí.
Hér gefur að líta eimarana þrjá, sem nefndir eru eftir dætrum eigandans en þeir (ekki dæturnar) eru ítölsk framleiðsla, frá Master Coppersmiths í Sienna.
Frá Teeling koma þrír standardar; blanda úr rommtunnu, kornviskí og einmöltungur. Nánar um standardinn þeirra hér.
Rommtunnan er afar aðgengileg, létt með góðri sætu úr tommtunnunni.
Kornviskíið er léttara og ferskara og einmöltungurinn er sá glúrnasti enda koma þar við sögu fimm mismunandi tunnur auk búrbontunna, en þær eru sérrí, port, madeira, búrgúndí og cabernet sauvignon. Heilmikið að gerast, þykkt áferð, mikill ávöxtur og mjög fágað.
Myndir eru frá verksmiðjuheimsókn okkar til Teeling, hægt er að bóka túr hjá þeim hér