Nýjar verksmiðjur

Eins og við höfum komið inn á áður þá er gósentíð í viskíbransanum um þessar mundir, svo góð að maður er jafnvel farinn að hafa áhyggjur af því að þessi bóla muni springa. Vonum þó vissulega að svo verði ekki!  Nýjar verksmiðjur skjótast upp sem gorkúlur um allt Skotland, Speyside, hálöndum, láglöndum, Islay og bara um allt hreinlega auk þess sem stórkanónurnar eru margar hverjar að auka framleiðsugetu sína umtalsvert.

Torabhaig (Toravekk):

Hingað til hefur einungis verið ein verksmiðja á Isle of Skye og er flestum kunnug, Talisker.

Torabhaig hóf framleiðslu fyrir stuttu og verður spennandi að sjá hvað kemur frá þeim, en vissulega þurfum við að hinkra þónokkuð eftir fyrsta viskíinu þar, eðli málsins samkvæmt.

 


Toulvaddie (Túlvaddí):

Þessi verksmiðja er sú fyrsta í Skotlandi  í yfir 200 ár, sem er stofnuð af konu. Loksins segjum við. Heather Nelson er komin af miklum viskíættum og stofnaði þetta fyrirtæki nýverið og á framleiðsla að hefjast á þessu ári, 2018. Toulvaddie er í hálöndunum og er Glenmorangie hennar næsti nágranni.


 

Dalmunach:

Sumir kannski muna eftir Imperial verksmiðjunni í Speyside en henni var lokað undir lok síðustu aldar og rifin. Dalmunach er í byggingu á sama stað og Imperial var. Dalmunach er í eigu drykkjarisans Pernod Ricard og verður hún í stærri kantinum, með mikla framleiðslugetu og gædd nýjustu tækni. Sennilega fer mikið af framleiðslunni í blöndur á vegum Pernod en spennandi verður að sjá hvernig einmöltungar þaðan koma út.


Lonewolf:

Lonewolf er í Aberdeenskíri og er í eigu bjórframleiðandans Brewdog en uppgangur þess fyrirtækis hefur verið með hreinum ólíkindum undanfarin ár. Framsækið fyrirtæki sem er ófeimið við að prófa nýja hluti og verður mjög spennandi að sjá hvernig þeim gengur í framtíðinni.

 


Ardnahoe:

Nýtt viskíból á Islay, staðsett rétt sunnan Bunnahabhain og með stórfenglegt útsýni yfir Sound of Islay yfir til Jura. Jim McEwan, fyrrum karl í brúnni hjá Bruichladdich settist í helgan stein nýverið en honum tóks ekki lengi að halda sig heima fyrir og þegar Ardnahoe nálgaðist hann varðandi yfirumsjón með uppbyggingu Ardnahoe þá henti hann inniskónum upp í hillu og sá um allt frá uppbygginu húsakynnanna að lögun eimaranna og allt þar á milli. Þarna verður framleitt reykt Islay viskí eins og eyjan er þekkt fyrir.

Þetta er einhver mest spennandi nýja viskíverksmiðja Skotlands leyfum við okkur að fullyrða.

 


Clydeside:

Clydeside er í miðri Glasgow, rétt við ána Clyde sem rennur gegnum borgina. Framleiðslugetan er 500.000 lítrar á ársgrundvelli, semsagt ekki gífurlega stór miðað við margar aðrar en þarna verður framúrskarandi aðstaða til heimsókna. Reglulegar ferðir um verksmiðjuna með gesti, smakkanir og einnig hægt að leigja sali þar fyrir hina ýmsustu viðburði. Þarna verður líf og fjör og túrar hafnir en viskíið verður ekki klárt fyrr en í fyrsta lagi 2020. Þaðan á að koma létt og blómlegt, sígilt láglandaviskí.

 


Lagg:

Lagg er á Isle of Arran. Sumir kannast eflaust við Arran viskíið frá eynni at arna en Lagg er einmitt í eigu þeirra. Sökum mikillar eftirspurnar er Arran Distillers fyrirtækið að byggja nýja verksmiðju á suðurodda eyjarinnar. Isle of Arran viskí er vananlega algerlega óreykt með einni undantekningu, en það er Arran Machrie Moor, sem er léttreykt. Öll framleiðsla reykts viskís færist yfir á Lagg. Spennandi tímar framundan þar.

 


Bladnoch:

Bladnoch er frá Láglöndunum en er ekki beint ný verksmiðja, en hún hefur verið óvirk um nokkra hríð þar til nýverið er ástralskur kaupsýslumaður keypti fyrirtækið og hefur tekið verksmiðjuna í gegn frá A-Ö. Bladnoch var sígildur láglendingur, ofsalega ferskur, léttur og blómlegur og er stefnan að viðhalda þeirri hefð. Viskíhornið hefur orðið þess heiðurs aðnjótandi að prufa nokkur gömul Bladnoch viskí og hafa þau verið algerlega framúrskarandi og vonum við að sú verði raunin undir nýjum eiganda.


2 athugasemdir við “Nýjar verksmiðjur

  1. Frábært framtak – flott veftímarit. Smá athugasemd hér. Myndin sem fylgir Toulvaddie er af ætluðu útliti Ardnahoe verksmiðjunnar. Pabs of Jura í baksýn.

    Líkar við

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.