Flóki Single Malt

Eins og viskíáhugamenn ættu að kannast við þá leit fyrsta, íslenska viskíið dagsins ljós fyrir nokkru. Fyrst um sinn var eingöngu hægt að fá ungmalt, þ.e.a.s. viskí sem hafði ekki náð tilskyldum aldri en til að megi kalla drykkinn viskí, þá þarf það að hafa legið í eikartunnum í þrjú ár og einn dag hið minnsta.

Einmöltungurinn Flóki er þroskaður í sömu tunnum og ungmaltið, þ.e.a.s. í tunnurnar fór fyrst ungmalt/viskívísir, en síðan það sem varð svo að einmöltungnum, átappað 47% og rétt rúmlega þriggja ára gamall. Langflest maltviskí eru þroskuð í tunnum sem áður innihéldu áfengan drykk; annað viskí, sérrí, léttvín og þess háttar. (Algengast er að þroska viskí í gömlum búrbontunnum). Eimverksfólk bjó því til sínar eigin ,,gömlu” tunnur, þ.e. settu Flóki Ungmalt í þær í skamman tíma og enduráfylltu síðan með því sem síðar varð að a.m.k. þriggja ára einmöltungi.

Hvernig smakkast svo fyrsti einmöltungur Íslendinga?

Vissulega er Flóki ungur að árum, rétt skriðinn yfir þriggja ára aldurinn en er merkilega vel þroskaður þrátt fyrir það. Töluvert mikill keimur af íslenska bygginu, mjög líflegt og hresst og greinilegt að Flóki er afar hamingjusamur með að hafa náð tilskyldum aldri og njóta sólarljóssins eftir tímann í tunnunni.

Litur: Föl-gullinn

Angan: Bygg, lyktar svolítið eins og anganin sem mætir manni þegar maður stígur inn í viskíverksmiðju. Svolítil sæta, ögn af karamellu/toffí, dass af anís. Mikil eik og töluverð vanilla, ögn meiri en maður hefði sennilega búist við af þetta ungum dropa. Einnig keimur sem minnir á ávexti í átt við blóðappelsínur og/eða greipaldin. Íslenska byggið gefur greinilega mikið bragð því það er þarna sami bygg-keimurinn og er svo áberandi í gininu frá Eimverki.

Og í lokin, hafrakex með smjöri!

Bragð: Ísland. Þetta bragðast svolítið eins og Ísland. Tún að sumri eftir slátt. Íslenskar fjallajurtir og byggið lætur mikið fyrir sér fara. Síðan dettur inn svolítil sykursæta, jafnvel hunang. Merkilega glúrið miðað við aldur verðum við að segja. Hrikalega ferskt og skemmtilegt. Ekki flóknasta viskí veraldar enda ekki við því að búast, en alveg hreint ótrúlega vel heppnað. Það koma plómur við sögu, appelsínubörkur, töluvert krydd. Vanillan kemur betur fram eftir drykklanga stund í glasinu.

Með vatnsdropa: Alls ekki nauðsynlegt að bæta vatni við en það mýkir Flóka örlítið og dregur fram meiri ávaxtakeim, en þynnir hann sennilega of mikið fyrir margra smekk.

Eftirbragð: Miðlungslangt með töluvert mikilli vanillu, vanillustangir, krydd, appelsínur og svo örlar á anís/lakkrískeim.

Niðurstaða: Vissulega þarf að hafa í huga að þarna er ekki verið að smakka viskí sem hefur fengið að staldra við lengi í eikinni, þetta er ungt að árum og hefur ekki náð þeirri dýpt sem það á vonandi eftir að gera.

En, og þarna er stórt EN, þetta er óhemju vel heppnaður einmöltungur hjá þeim í Eimverki. Við hjá Viskíhorninu höfum smakkað aragrúa af viskíum á þessum aldri, hvaðanæva að úr heiminum og Flóki hefur í fullu tré við aðra framleiðendur sem hafa verið að áratugum saman.

Vel gert Eimverk og á fyrirtækið heiður skilinn fyrir bæði að láta drauminn rætast og framleiða fyrsta íslenska viskíið því markaðurinn er jú vissulega erfiður því augljóslega þarf að líða nokkur tími þar til viskíið er tilbúið, og fyrir það að vanda verulega til verks og búa til frábært viskí.

Við getum ekki beðið eftir að smakka eldri útgáfur af Flóka, en vissulega neyðumst við jú til að bíða dágóðan tíma eftir því að það gerist. Við skorum á íslenska viskíunnendur að smakka á Flóka nú þegar.

Flóki fæst í ÁTVR og fríhöfninni og er vissulega einnig hægt að hafa beint samband við Eimverk, auk þess minnum við á verksmiðjutúrana sem þar er boðið upp á.


Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.