Ardbeg day 2018 var haldinn hátíðlegur 2. júní, en undanfarinn áratug eða svo hefur Ardbeg verksmiðjan á Islay gefið út nýja útgáfu í takmörkuðu upplagi með pompi og pragt fyrstu helgina í júní, útgáfu sem er vanalega hálfgerð tilraunastarfsemi, þroskuð t.a.m. í tunnum sem Ardbeg liggur vanalega ekki á. Í fyrra kom t.d. Ardbeg Kelpie, sem var úr eikartunnum sem uxu við Svartahaf og gáfu viskíinu meira söltugan keim en gengur og gerist þar á bæ.
Í ár er það Ardbeg Grooves, og er sagt vera úr léttvínsvíntunnum, en ekkert tilgreint nánar hverskonar víntunnum, né hversu gamalt það er. Það er þó nokkuð ljóst höldum við að þarna hafi komið rauðvínstunnur við sögu, og að viskíið er sennilega í yngri kantinum
Litur: Dökkur koparlitur. Víntunnurnar hafa verið nokkuð lifandi og virkar og gefið þennan djúpa koparlit.
Angan: Eins og Ardbeg er von og vísa, þá er Grooves mikið reykt og það er hann sem mætir manni fyrst. Síðan koma rauðvínsáhrifin vel fram. Greinum rúsínur, plómur og dökka ávexti úr þeirri áttinni og ekki laust við að þarna megi finna smá lakkrískeim.
Bragð: Mikill móreykur vissulega, þang, söltugt, þónokkur sæta úr eikinni, aska, chillipipar og eigum við að þora… sinnep!
Eftirbragð: Langt, þungt, digurt, mikill mór, jörð (mold), togarakaðlar, salt og maður finnur vel fyrir víntunnunum.
Niðurstaða: Ekki besta Ardbeg Day útgáfan, það getur jú verið fjári strembið að láta þetta mikið reykt viskí dansa vel við léttvínstunnur, sérstaklega rauðvíns. Verð að segja að þetta olli örlitlum vonbrigðum eftir frábærar Ardbeg Day útgáfur undanfarinna ára. Rauðvín og reykur getur nefnilega verið ári stormasamt hjónaband.
Nokkrum framleiðendum hefur þó tekist gríðarvel upp undanfarið með slíka sambúð og nægir þar að nefna Longrow Red og Kilchoman.
Alls ekki slæmt viskí, alls alls ekki, virkilega gott en það bara nær ekki alveg sömu hæðum og t.a.m. Kelpie, Supernova og fleiri Ardbeg Day útgáfur undanfarinn ára.
Nauðsynlegt þó fyrir harða Ardbeg aðdáendur að prófa.
Rétt talsvert undir Ardbeg standard. Fyrir þá sem voru á staðnum þennan frábæra sólardag var samt boðið upp á nokkuð talsvert betra. Úr jeroboam flösum var selt Ardbeg day 2012 og Supernova 2014 útgáfan hvor tveggja magnaður Ardbeg eins og hann gerist bestur. Kv Elvar
Líkar viðLíkar við