Whisky LIVE

Whisky Live hefur haft orð á sér fyrir að bjóða upp á frekar algeng og einföld viskí gegnum tíðina, og miðað svolítið að reynsluminni kúnnahóp, en þetta árið var bara nokkuð fjári gott og margt í boði.

Þarna kenndi ýmissa grasa. Þarna voru standar frá Glenrothes, sem buðu upp á sitt kjarnaúrval, Berry Brothers & Rudd mættu með allskonar mismunandi viskí allt að 33 ára. The Boutique-y Whisky Co. mætti með sínar flöskur en þeir, rétt eins og Berry Bros eru ekki með framleiðslu heldur nálgast viskí hvaðanæva að úr heiminum og átappa sjálfir. Annað dæmi er James Eadie átöppunarfyrirtækið sem er nýtt, en með algerlega framúrskarandi einmöltunga.

Þarna var Box frá Svíþjóð, Paul John frá Indlandi, Brenne frá Frakklandi, Kavalan frá Taiwan, Cotswolds frá Englandi og svo mætti lengi telja utan allra skosku einmöltunganna. Það var mikið skrifað og skrafað, spjallað og spögúlerað, margt nýtt smakkað ásamt endurnýjun kynna við gamla möltunga og mörg kunnugleg andlit sem gaman var að ræða við um heima og viskígeima.

Hvað stóð svo upp úr?

James Eadie var með sinn stand eins og áður hefur komið fram. Þar á bæ er boðið upp á unga einmöltunga frá framleiðendum eins og Dailuanie (eitt örfárra átöppunarfyrirtækja sem getur nálgast möltung þaðan), Caol Ila, Blair Athol, Inchgower, Auchroisk o.fl. viskí sem getur verið gríðarlega erfitt að nálgast. Þar er verulega vel vandað til verka, og vill svo til að við hjá Viskíhorninu þekkjum vel til og erum í góðu, persónulegu sambandi við eiganda og helstu starfsmenn. Hlutlaust mat er þó að þarna séu á ferðinni stórkostlega vel þroskuð viskí þrátt fyrir ungan aldur og verðlagið er afar sanngjarnt.

Auk einmöltunganna er boðið upp á blönduna TradeMark X sem er endurgerð gamals viskís sem framleitt var af langafa núverandi eiganda James Eadie og er mjög mikilfenglegt en það er efni í aðra grein sem birtist hér á ‘Horninu síðar.

Annað viskí sem okkur fannst mjög mikið til koma er franskt og heitir Brenne. Eins og margoft hefur komið fram hér þá er farið að framleiða hágæða viskí víða um veröld og Frakkland, okkar næsti nágranni hér í Evrópu er þar engin undantekning.

Brenne hóf starfsemi árið 2012 svo ekki er mikið um háöldruð viskí þaðan enn sem komið er en þessi ungi einmöltungur frá þeim sló okkur hálfpartinn út af laginu, svo góður var hann.

Brenne er bruggað úr byggi frá Cognac svæðinu í Frakklandi, eintunnungur sem er síðan þroskaður í ámum sem áður innihéldu koníak. Niðurstaðan er frekar sætt viskí, mikill karamellukeimur og mikið bragð af þroskuðum banönum. Hafi einhver smakkað eftirrétt hér í Bretlandi sem kallast Banoffee Pie, þá er það akkúrat það sem þetta viskí angar og bragðast af. Algerlega stórfenglegt, öðruvísi (sem á sumum bæjum þykir ekki nógu fínt) en við erum alltaf til í að prófa eitthvað nýtt. Gaman þegar framleiðendur reyna eitthvað nýtt og prufa sig áfram. Stundum virkar það ekki, gott og vel en í þessu tilviki steinliggur þetta. Mælum eindregið með Brenne. Farvel Frans!

Þarna var einnig boðið upp á 33 ára Teaninich frá hinni virtu og langlífu vínverslun í mið- Lundúnum Berry Brothers&Rudd. Einn hápunktanna. Gríðarlega mikill ávöxtur, framandi, exótískt ávaxtabragð. Má auðveldlega greina ananas og jafnvel papaya.

Góðkunningi Viskíhornsins, Dave Worthington hjá The Boutoque-y Company var vissulega á sínum stað. Þarna tókum við til kostanna afar vel þroskað, ungt Caol Ila sem gerði allt sem þú býst við af Caol Ila. Reykur, beikon, brunnin spýta en samt tekst þeim að hafa nettan ávaxtakeim þarna á bakvið. Einnig smökkuðum við viskí þar sem við höfum aldrei hnotið um áður, Willowdale frá Nýja Sjálandi. Þetta var eintunnungur af tunnustyrkleika og þroskaður í rauðvínstunnum. Óhemju mikill ávöxtur, dökkir ávextir, rúsínur, plómur, fíkjur. Alger bragðsprengja á tungunni en eftirbragðið var mjög þurrt. Mikil tannín úr víntunnunni. Mjög gott en maður þurfti svona hálfan lítra af vatni eftir á til að vega á móti þurrkinum. Eitt það ávaxtaríkasta viskí sem við höfum smakkað lengi en eftirbragðið var eins og Sahara. Mjög áhugavert.

Box, hið sænska var með stand. Viskíhornið hefur smakkað þónokkuð margar útgáfur af Box gegnum tíðina þrátt fyrir ungan aldur viskíbólsins en eiming hófst þar árið 2010. Okkur hefur alltaf þótt Mackmyra standa skör framar en Box, en svei mér þá ef Box er ekki um það bil að taka fram úr Mackmyra. Mjög safarík og skemmtileg viskí sem boðið var upp á.

Hið enska fyrirtæki Cotswolds var rétt í þessu að koma þriggja ára einmöltungi á flöskur í fyrsta sinn en hingað til hefur eingöngu verið gin fáanlegt frá þeim. Það er lenskan þessa dagana að viskíframleiðendur framleiði gin meðan viskíið er að þroskast svo þeir hafi einhverja vöru í sölu því jú, eins og við vitum þá þarf viskí að eyða þremur árum hið minnsta í tunnum áður en hægt er að koma nokkru á markað. Þar vinna saman þessir skemmtilegu drykkir, gin og viskí og þar sem eftirspurnin eftir hvoru tveggja er gríðarleg þessi misserin þá sjá framtíðarviskíframleiðendur sér leik á borði og gera gin meðan viskíð er að þroskast og þróast.

Það sem í boði var á Whisky Live var þriggja ára og tveggja vikna einmöltungur.

Oft höfum við sagt hér á ‘Horninu að viskí þurfi alls ekki að vera gamalt til að vera gott, þó það hjálpi til oft, og það sannast hér. Virkilega vel gert viskí, vel samsett, vel þroskað þrátt fyrir ungan aldur og greinilega mjög vel vandað til verka.

Þess ber að geta að Cotswolds ginið er eitt það allra besta á markaðnum í dag og með þeim söluhæstu í Royal Mile Whiskies.

Glen Scotia bauð upp á sínar vörur, en sá framleiðandi er einn fárra sem eftir lifa á Campbeltown. Þaðan koma sígild Campbeltown whisky, léttreykt með örlítið söltugum keim.

Einn vanmetnasti viskíframleiðandi Skotlands að okkar mati er Glencadam sem er á austurströnd hálandanna. Fremur lítt þekkt viskí en þaðan koma nokkuð margar mismunandi tegundir úr mismunandi tunnum. Búrbon, sérrí, púrt svo eitthvað sé nefnt og á öllum aldri nánast. Ungt, undir 10 ára, 10 ára, 13, 17, 18, 19 og 21s. Eldri Glencadam viskí eru framúrskarandi og langar okkur sérstakleg að nefna 17 ára útgáfuna úr púrtvínstunnum. Algert gúmmelaði.

Svo má að lokum nefna Peaky Blinder hið írska. Sennilega hafa einhverjir lesendur fylgst með þeim stórgóðu þáttum. Ekki kannski bjuggumst við við miklu en það kom okkur frekar mikið á óvart. Bjóst við grófara viskíi en raunin varð. Ekki flóknasta viskí veraldar en vel yfir meðallagi. Sígilt, írskt, grösugt og blómlegt.

Þetta var svona það helsta sem stóð upp úr á þessum skemmtilega viðburði. Sé spurt hvað hafi verið skemmtilegast að smakka, þá liggur við að við tilnefnum Brenne hið franska. Stórgott viskí eins og kemur fram að ofan, og það kom svona líka skemmtilega á óvart.


Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.