Mýta 1: Viskí er gamaldags
Sjáið þið þá ekki fyrir ykkur, eldri menn í Chesterfieldstólum á fínum bar eða veitingahúsi, með viskí í sívölu kristalsglasi, muldrandi eitthvað annaðslagið um móreyk og Macallan og gjóa augunum reglulega yfir öxlina í áttina að unga fólkinu hinum megin, með vanþóknunarsvip. Margir hafa þessa ímynd í höfðinu varðandi þá sem drekka viskí, ímynd frá tímum hestvagna og kúluhatta.
Á 8. og 9. áratugnum gekk viskí í gegnum erfiða tíma, verksmiðjur lokuðu, viskí var ekki í tísku, framleiðsla í lágmarki sem þýddi það að þar er heil kynslóð sem komst ekki í mikil kynni við lífsins vatn, það er sennilega stærsta ástæðan fyrir vanþekkingu margra gagnvart viskíi.
Viskí hefur undanfarna tvo áratugi eða svo, verið í geysilegri uppsveiflu og má kannski segja að það sé í tísku, enda allir (löglegir) aldurshópar af báðum kynjum farnir að drekka eða a.m.k. farnir að hafa áhuga á eðalviskíum og auk þess er viskí vinsælt í ýmis hanastél.
Það er ekki viskí sem er gamaldags, það er viðhorf margra gagnvart því.
Mýta 2: Viskí er drykkur fyrir karla
Rangt! Viskí er drykkur fyrir alla, skiptir ekki nokkru máli hvort þú ert kven- eða karlkyns. Viskí er svo margslunginn drykkur að allir geta fundið eitthvað við sitt hæfi. Staðreynd.
Mýta 3: Viskí á að drekka óblandað
Rangt! Drekkið viskí akkúrat og nákvæmlega eins og þið viljið drekka það. Óblandað, í hanastéli, blandað saman við vatn, klaka, gosdrykk, tónik eða hvað sem er … skiptir engu. Það er engin ein rétt leið til að njóta lífsins vatns. Njótið þess bara.
Mýta 4: Viskí er eftirréttur
Rangt. Viskí er frábær forréttur, hvort sem er óblandað eða í hanastéli, létt einmöltungsviskí blandast nefnilega sérlega vel og gera frábær hanastél meðan beðið er eftir steikinni. Náið ykkur kannski í hátt glas, fyllið hálfvegis með góðum Skota og klaka, dembið í sódavatni eða góðum tónik. Hviss, bamm, búmm. Ef þið viljið drekka óblandað sem forrétt, þá mælum við með t.a.m. Glenfiddich, Deanston og/eða ungu Balblair.
Þyngri viskí í átt við Macallan, Glendronach eða Glenfarclas eru jú vissulega frábær eftirréttaviskí með sinn dökka, þunga og kryddkennda keim.
Mýta 5: Einmöltungar eru betri en blöndur
Ekkert endilega. Það er fullt af stórgóðum blönduðum viskíum til. Það voru einmitt blönduð viskí sem komu drykknum upphaflega á þennan stall sem hann er á í dag. Í árdaga þóttu einmöltungar oft grófir og óstabílir. Þá kom síeimarinn til sögunnar, með sína afkastagetu og mildari spíra úr ýmiskonar korntegundum, sem var þá blandað við einmöltungana til að milda þá og ná fram meiri stöðugleika. Þannig urðu t.d. blöndur eins og Johnnie Walker til.
Blönduð viskí höfða til margra, vegna þess að þau eru bragðminni oft og tíðum, léttari og henta vel í hanastél. Við hjá Viskíhorninu einblínum svolítið á einmöltunga en það eru frábærar blöndur þarna úti. Til að nefna örfáar fá má geta Chivas Regal 18 ára sem er framúrskarandi blanda, Johnnie Walker Black og upp úr, The Antiquary 12 ára plús og James Eadie Trademark X.
Mýta 6: Besta viskíið er frá Skotlandi
Vissulega framleiða Skotar gríðarlega góð og virt viskí eins og við vitum öll, þjóðardrykkurinn sjálfur, en í uppsveiflunni sem er nú um allan heim í viskíbransanum eru frábær viskí að skjóta upp kollinum víðsvegar. Það er ekki síðri uppsveifla á Írlandi en í Skotlandi, auk gömlu standardanna eins og Midleton (Jameson og Redbreast o.fl.)
Við vitum öll hvað er að gerast í Japan. Þaðan koma frábær viskí, Yamazaki og Nikka svo eitthvað sé nefnt. Japanir hafa verið að framleiða viskí lengur en margir halda, eða síðan upp úr 1920 og eru þau framleidd á sama hátt og skosk.
Hvað önnur lönd varðar má nefna Svíþjóð en þaðan koma t.d. Mackmyra og Box. Mackmyra hefur verið að gera mjög góða hluti undanfarið, Box á lengra í land. Þaðan kemur einnig Hven, sem er vert að hafa í huga í framtíðinni.
Indland er að gera verulega góða hluti með bæði Amrut og Paul John, auk þess má nefna Rampur, sem er nýtt og skemmtilegt. Létt, með mikinn appelsínukeim. Fyndið með indversk viskí að maður kemur aldrei til með að sjá aldur á þeim, því þau koma aldrei til með að verða sérlega gömul. Hitinn og uppgufunin valda því að ef viskíið liggur lengi á tunnum, þá verður hreinlega ekki mikið eftir í þeim eftir kannski 12 ár. Þau eru jú vissuleg alltaf a.m.k. þriggja, en verða ekki mjög mikið meira en það og því er aldursgreiningunni sleppt.
Finnland er með Teerenpeli sem er mjög efnilegt og svo vissulega Ísland með Flóka.
Viskíhornið varð þess heiðurs aðnjótandi að smakka fyrsta einmöltunginn nýverið, og þótti okkur mjög mikið til koma. Við höfum dreypt á aragrúa ungra, skoskra og annarra, viskía, og Flóki hefur í fullu tréi við þá flesta. Virkilega vel gert.
Þessi mýta er kannski ekki hrakin nægilega vel hér, enda erum við hjá Viskíhorninu kannski ekki alveg hlutlaus enda eru skosk viskí okkur afar hugleikin. Þó er það ófrávíkjanleg staðreynd að margar viskíþjóðir eru að narta vel í rassinn á Skotlandi.