Þið sem hafið séð hina ágætu kvikmynd, Angel’s Share frá 2012 munið kannski að viskíflaskan sem allt snerist um í henni hét Malt Mill Single Malt, en sú flaska er uppspuni frá rótum, eftir því sem best er vitað.
Malt Mill var örverksmiðja, byggð í upphafi sl. aldar á lóð Lagavulin á Islay og í eigu sama aðila en framleiddi eingöngu viskí til blöndunar, í White Horse og Mackie’s Ancient Scotch en eftir því sem best er vitað var það aldrei átappað sem einmöltungur.
Nýverið skaut þó upp kollinum mini-flaska sem haldið er fram að innihaldi single malt frá Malt Mill, ein fjögurra sem hafði verið búin til. Forsagan er sú að, eins og fyrr segir, var það aldrei átappað sem single malt en meðlimum í klúbbi miniflöskusafnara hafði áskotnast 200ml. flaska af Malt Mill sem einmöltungi sem starfsmaður framleiðandans tók, hugsanlega, ófrjálsri hendi á sínum tíma. Keyptu þeir flöskuna af starfsmanninum óprúttna (á 20 sterlingspund er sagt) og settu á 4 innsiglaðar 50ml. flöskur og seldu til klúbbmeðlima.
Fyrir nokkru sást til, að því er haldið fram, einnar þessara fjögurra flaskna, fór hún á uppboð nýverið og seldist á 3.400 pund eða tæpa hálfa milljón íslenskra króna þrátt fyrir að engin leið sé að staðfesta uppruna hennar og orginalheit. Reyndar má vissulega halda því fram að hafi þetta verið staðfest ekta flaska, hefði hún selst á hærri upphæð.
Þá er spurning hvort hún verði opnuð og smakkað á.
Þess má geta að miðinn á flöskunni er grunsamlega vel farinn, en hvað um það. Það má vel vera að þessi saga haldi öll vatni.
Malt Mill lokaði árið 1962.