Topp smakkanir 2017

Þegar nýtt ár gengur í garð er ekki úr vegi að líta ögn til baka og renna yfir viskí sem voru smökkuð í fyrsta sinn á árinu sem leið. Tekið skal fram að þetta eru ekki endilega allt nýjar útgáfur á árinu 2017, heldur þau sem stóðu upp úr af öllum þessum aragrúa viskía sem við dreyptum á á liðnu ári.

Skoðum snarlega það sem stóð upp úr, í engri sérstakri röð.

Benromach gaf út nýtt, þríeimað viskí sem er nýlunda þar á bæ og er þetta í fyrsta sinn sem Benromach eimar þrisvar sinnum.

Það tókst ofsalega vel til, flauelsmjúkt viskí, mikil vanilla, hvítt súkkulaði og reiðinnar býsn af ferskum og framandi ávöxtum auk örlítils snefils af reyk. Þess má geta að upplagið var einungis 8000 flöskur á heimsvísu.


Ardbeg kom með nýja útgáfu, An Oa (“An Ó”) sem var, til að byrja með eingöngu fyrir Bretlandsmarkað en á árinu 2018 fer An Oa að verða fáanlegt víðar um heim og kemur til með að verða hluti af kjarnaframleiðslu Ardbeg ásamt 10 ára, Uigeadail og Corryvreckan.

Mjög skemmtilegt viskí, ungt en mjög glúrið, að hluta úr Pedro Ximenez sérríámum. Það minnir svolítið á Uigeadail, en bara ekki eins ágengt.

Auk þess má nefna Ardbeg Kelpie sem kom út á árinu fyrir Feis Ile hátíðina og Ardbeg Day. Það sem er óvenjulegt við þennan Ardbeg er það að viskíið er þroskað að hluta í ferskri eik frá svæðinu kringum Svartahaf, og gefur hún afar áberandi söltugan keim, meira heldur en er vanalega í Ardbeg.


Á World Whiskies Awards á árinu 2017 bar þar sigur úr býtum, Craigellachie 31s árs í flokki einmöltunga. Viskíhornið var svo heppið að smakka gripinn á árinu en það getur verið fremur torvelt að nálgast flösku því, jú eftir sigurinn hefur eftirspurnin aukist gríðarlega auk þess sem viskíið er eingöngu fáanlegt í sérvöldum fríhöfnum.

Ef snúið er upp á handlegginn af töluverðu afli þá kannski erum við nokkuð sammála þessum verðlaunum, þetta er eitt það allra besta sem við smökkuðum á árinu, ef ekki það besta.

Mjög margslungið viskí, mjög margt að gerast eftir alla þessa rúmu þrjá áratugi í eikinni. Ávöxtur, vanilla, mikil hunangssæta og karamellu/toffíkeimur.

 


Glenmorangie Astar

Glenmorangie á sér afar dyggan aðdáendahóp um allan heim og Ísland þar engin undantekning.

Astar útgáfan lét aftur á sér kræla á árinu eftir að hafa verið tekin úr framleiðslu árið 2012 sökum skorts á tunnum, en Astar er þroskað í sérsmíðuðum tunnum frá Missouri í Bandaríkjunum.

Astar býður upp á mikinn ávöxt, perur, hunang, engifer (piparkökur?) og vanillu og er átappað á 52.5% prósentum alkóhóls. Mælum með dropa af vatni út í til að milda það aðeins auk þess sem það sprengir út vanilluna og kryddið úr eikinni.


Viskí þurfa ekki að vera gömul til að vera góð, það sannaði blöndunarfyrirtækið James Eadie með átta ára þrítunnungi frá Caol Ila. Afbragðsviskí, með miklum móreyk, sjávarseltu og keim af brenndu beikoni. Valið vinsælasta Islay viskíið á The Whisky Fringe hátíðinni í Edinborg í ágúst síðastliðnum.

Kilkerran 8 ára, 56.2%

Glengyle viskíbólið er á Campbeltown, fyrrverandi höfuðborg viskíframleiðslu í Skotlandi og frá því kemur Kilkerran viskíið. Einkennandi fyrir svæðið, nokkur reykur, sjávarselta og mikill ávaxtakeimur. HÉR er eldri bróðirinn tekinn til kostanna en sá yngri stendur honum ekki langt að baki. Það eru algerlega framúrskarandi viskí að koma frá Glengyle, en sú opnaði árið 2000 eftir að hafa legið í dvala áratugum saman.

Glencadam 13 ára

Þessi tiltekna birting frá hinum lítt þekkta framleiðanda kom í upplagi sem telur 6000 flöskur og því fremur takmörkuð.

Þarna ægir saman karamellu, vanillu, kryddi, appelsínum og allskonar góðmeti. Smellið HÉR fyrir smökkun.


Það eru ekki bara Skotar sem eru að gera framúrskarandi viskí. Millstone frá Hollandi var eitthvað sem við smökkuðum í fyrsta sinn á árinu og urðum mjög hrifin.

Þar á bæ er framleitt rúgviskí sem við fullyrðum að sé eitt það allra besta í heiminum en einnig koma þaðan einmöltungar sem standa rúgnum síst að baki.

Millstone 10 Single Malt

Lyktin kallar fram bros allan hringinn og sjáöldrin tútna út þegar dreypt er á. Mjög ferskt og rennur ótrúlega ljúflega niður. Vanilla, framandi ávextir, hunang, krydd og kókoshnetur. Topp viskí og alls ekki láta þá staðreynd að það sé frá landi sem er ekki þekkt fyrir viskíframleiðslu, aftra ykkur í að prufa, hafið þið tök á.


Frá Írlandi smökkuðum við í fyrsta sinn 10 ára Dunville’s viskí. Það er ekki langt frá því að Dunville’s hafi tekið fram úr Redbreast sem okkar uppáhalds Íri en jú, Redbreast heldur sennilega toppsætinu, með naumindum þó.

Dunville’s er framleitt í höfuðborg Norður-Írlands og kom dropinn mjög á óvart. Mun betri, þroskaðir, með meiri fyllingu en við áttum von á. Fremur sætt, mikil vanilla og ferskur eplakeimur.

Þó það kannski hafi ekki velt Redbreast úr toppsætinu sem besti Írinn, þá er þetta allavega langbesti Norður-Írinn!

Það verður spenanndi að fylgjast með írskum viskíum á næstu árum, en þar er mikil gróska þessa dagana og mörg ný viskíból að opna, rétt eins og í Skotlandi.


Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.